Sport

Svíi tekur við af Svía sem þjálfari landsliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnus Blårand.
Magnus Blårand. Mynd/Íshokkísamband Íslands
Svíinn Magnus Blårand verður næsti aðalþjálfari Íslands í íshokkí en stjórn Íshokkísambands Íslands ákvað á fundi sínum í gær að ráða Blårand sem næsta yfirþjálfara landsliða Íslands í íshokkí.

Magnus tekur við starfinu af landa sínum Tim Brithén en Tim gekk fyrir stuttu til liðs við þjálfarateymi HV71 sem spilar í efstu deild í Svíþjóð.

Magnus, sem er 39 ára gamall, hefur starfað við þjálfun í Svíþjóð undanfarin rúmlega tíu ár og þá mest hjá Nypöking en einnig Vita Hastein og  Djurgarden.

Stjórn og landsliðsnefnd ÍHÍ vill með ráðningu halda áfram því starfi sem hófst með ráðningu Tim Brithén's en Magnus mun fljótlega koma til landsins til að skoða leikmenn og funda varðandi næstu skref.

Verkefni landsliða Íslands á komandi keppnistímabili eru fimm. Í nóvember heldur karlalandsliðið til þátttöku í undankeppni vetrarólympíuleikanna sem haldnir verða í Seúl 2018 en þetta er jafnframt í fyrsta skipti sem íslenskt landslið tekur þátt.

Karla- og kvennaliðið ásamt U18 og U20 ára liðum munu síðan taka þátt í HM mótum Alþjóða Íshokkísambandsins einsog undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×