Handbolti

Stuttbuxna-Grétar á eitt af bestu tilþrifunum á HM | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Grétar Ari Guðjónsson.
Grétar Ari Guðjónsson. Mynd/Heimasíða ihf
Íslenska 19 ára landsliðið í handbolta hefur byrjað vel á HM í Rússlandi og annar markvörður íslenska liðsins hefur vakið mikla athygli fyrir bæði góða markvörslu og sérstakan klæðaburð.

Grétar Ari Guðjónsson hefur varið vel á mótinu en hann vill frekar spila í stuttbuxum í markinu heldur en síðbuxum og er þannig alveg óhræddur að fá þrumuskot mótherjanna í lappirnar.

Grétar Ari átti eitt af fimm bestu tilþrifunum í annarri umferð heimsmeistaramótsins en mótshaldarar tóku saman bestu tilþrifin. Grétar er þar í góðum hópi með meðal annars Daniel Dujshebaev, syni Talant Dujshebaev. Daniel Dujshebaev náði sínum tilþrifum í leiknum á móti Íslandi.

Grétar Ari komst á blað fyrir frábæra markvörslu en hann sést þarna verja á skemmtilegan hátt þegar einn Spánverjinn komst einn í gegn í hraðaupphlaupi. Þessi markvarsla var einkar mikilvæg enda vann íslenska liðið leikinn með aðeins einu marki og það mátti því ekki miklu muna.

Íslenska liðið hefur unnið Þýskaland, Spán og Egyptaland í fyrstu þremur leikjum sínum en liðið mætir Noregi í toppslag riðilsins á eftir.

Það er hægt að sjá þessi fimm bestu tilþrif í annarri umferð HM 19 ára landsliða hér fyrir neðan. Nú er bara að vona að Grétar Ari og strákarnir haldi áfram á sömu sigurbraut.


Tengdar fréttir

Frábær byrjun Íslands á HM

Íslenska handboltalandsliðið skipað leikmönnum nítján ára og yngri vann frábæran sigur á Spáni á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Rússlandi, en lokatölur 25-24.

Stórsigur hjá strákunum í fyrsta leik

Íslenska handboltalandsliðið skipað leikmönnum nítján ára og yngri vann stórsigur á Þýskalandi í fyrsta leik liðsins á heimsmeistaramótinu í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×