Íslenski boltinn

Leikir færðir í Pepsi-deildinni og öll 17. umferðin á sama degi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Jónsson og félagar í Breiðabliki verða í beinni á Stöð 2 Sport.
Kristinn Jónsson og félagar í Breiðabliki verða í beinni á Stöð 2 Sport. Vísir/Anton Brink
Knattspyrnusamband Íslands hefur gert breytingar á 17. umferð Pepsi-deildar karla sem fer fram eftir ellefu daga.

Mótanefnd sambandsins hefur samþykkt að seinka þremur leikjum sem áttu að fara fram sunnudaginn 23. ágúst.

Leikirnir þrír fara nú allir fram daginn eftir sem þýðir að öll 17. umferðin fer nú fram mánudagskvöldið 24. ágúst næstkomandi.

Þetta verður sjötta umferðin í Pepsi-deildinni í sumar sem fer fram á sama degi en það gerðist síðast í 14. umferðinni 5. ágúst sem var fyrsta umferð eftir Verslunarmannahelgi.

Leikirnir sem færast aftur um einn dag er leikur Víkings og ÍBV á Víkingsvelli, leikur ÍA og Fjölnis á Norðurálsvellinum á Akranesi og leikur Keflavíkur og KR á Nettóvellinum í Keflavík.

Leikir ÍBV, Fjölnis og KR í umferðinni á undan voru allir færðir frá mánudeginum 17. ágúst til fimmtudagsins 20. ágúst vegna bikarúrslitaleik Vals og KR á laugardaginn.

Stöð 2 Sport sýnir einn leik í umferðinni sem er leikur íslandsmeistara Stjörnunnar og Breiðabliks sem fer fram klukkan 20.00 og er lokaleikur kvöldsins.  Allir hinir leikirnir í 17. umferðinni hefjast annars klukkan 18.00 mánudaginn 24. ágúst.

Hörður Magnússon og félagar í Pepsi-mörkunum gera alla umferðina síðan upp í markaþætti sínum strax að lokum leiks Stjörnunnar og Breiðabliks.

17. umferð Pepsi-deildar karla:

mán. 24. ágúst 18:00     Leiknir R. - FH (Leiknisvöllur)                    

mán. 24. ágúst 18:00     Valur - Fylkir (Laugardalsvöllur)                     

mán. 24. ágúst 18:00     Víkingur R. - ÍBV (Víkingsvöllur)                     

mán. 24. ágúst 18:00     Keflavík - KR (Nettóvöllurinn)                    

mán. 24. ágúst 18:00     ÍA - Fjölnir (Norðurálsvöllurinn)                     

mán. 24. ágúst 20:00     Stjarnan - Breiðablik (Samsung völlurinn)    




Fleiri fréttir

Sjá meira


×