Íslenski boltinn

Þormóður: Þetta eru nágrannaslagir af bestu gerð

Kristinn Páll Teitsson skrifar
„Það er með ólíkindum miðað við sögu þessara félaga að þetta er aðeins þriðji úrslitaleikur félaganna. KR sigraði 1966 og Valur 1990,“ sagði Þorgrímur Þráinsson, leikmaður Vals á árunum 1979-1990 í skemmtilegu myndbandi sem Alvogen vann fyrir bikarúrslitaleikinn á morgun.

KR varð bikarmeistari árið 1966 en árið 1990 hafði Valur betur. Þurfti vítaspyrnukeppni til þess að útkljá leik liðanna sem fór fram í myrkri eins og og sjá má hér.

„Þetta voru alltaf skemmtilegir leikir, nágrannaslagur af bestu gerð,“ sagði Þormóður Egilsson, fyrirliði KR, um árabil og tók Þorgrímur í sama streng.  

„KR var með stjörnum prýtt lið árið 1990 og KR gat unnið þetta 5-1 eða 6-1 en við náðum að hanga í 1-1 og fá annan leik, myrkraleikinn fræga,“ sagði Þorgrímur en Valur var seinni leik liðanna í vítaspyrnukeppni sem fór fram í myrkri.

„Við vorum betri aðilinn, við sóttum meira og fengum færin en höfðum þetta ekki og það var mjög sárt að tapa þessu í vítaspyrnukeppni,“ sagði Þormóður en Þorgrímur sagði margt eftirminnilegt frá þessu.

„Ég man alltaf eftir fyrirsögn Morgunblaðsins daginn eftir. Þar stóð þjófnaður sem var örlítið sárt en kannski satt. Þetta voru sætir leikir og góðir fyrir Val í minningunni.“

Báðir hvöttu þeir stuðningsmenn til að fjölmenna á völlinn á morgun og sögðu tilfinninguna að spila í jafn stórum leik ótrúlega.

„Það skiptir máli fyrir leikmennina að heyra í stuðningsmönnunum þegar þeir labba inn á, það fyllir þá stolti og vilja til að gera betur. Það skiptir máli að mæta í völlinn og vera ófeiminn að hvetja lið sitt. Þetta eru tvö góð fótboltalið og það lið sem nær að einbeita sér betur í leiknum held ég að hafi betur,“ sagði Þormóður.

„Ég á von á troðfullri stúku, stemmingu og markaleik,“ sagði Þorgrímur að lokum en myndbandið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×