Siglingasvæðið er afmarkað frá Laugarnesi að innsiglingunni í Reykjavíkurhöfn og því verður auðvelt að fylgjast með keppninni frá ströndinni, til dæmis frá Sólfarinu eins og kemur fram í fréttatilkynningu.
Mótið hefst með skipstjórafundi kl. 15:00 í dag og fyrsta umferð hefst um kl. 17:00. Á laugardag og sunnudag hefst keppni með fundi kl. 9:00.
Mótið í ár er haldið af Siglingafélagi Reykjavíkur, en þátttakendur eru frá fjórum siglingafélögum í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Akureyri. Fjöldi keppenda er um 25. Keppt er í fjórum flokkum:
Optimist A (fyrir lengra komna), Optimist B, Laser Radial og opnum flokki þar sem forgjöf ræður úrslitum.
Aðstaða fyrir áhugasama, aðstandendur, gesti og gangandi verður í húsi siglingafélagsins á Ingólfsgarði (bryggjunni aftan við Hörpuna hægra megin). Þar verður heitt á könnunni allan tímann. Keppendur munu sjósetja á rampi á Örfirisey en bátar verða í förum milli staðanna.
Formleg keppnisfyrirmæli er að finna á vef Siglingafélags Reykjavíkur, brokey.is en hér fyrir neðan eru einnig nokkrar skýringarmyndir.


