Bill Gates, stofnandi Microsoft, borðaði í Æðahelli í norðanverðri Heimaey fyrr í dag. Frá þessu er greint á vef Eyjafrétta þar sem greint er frá dvöl þessa ríkasta manns heims í Vestmannaeyjum. Eyjafréttir segja Gates hafa farið í siglingu með Stóra Erni, skemmtibát Ribsafari, eftir að hafa komið með fjölskyldu sinni og fylgdarliði með þyrlu rétt um hádegi í dag.
Flutti Stóri Örn Bill Gates og föruneyti hans í Æðahelli þar sem borðað var. Eftir það tók við sigling í kringum Vestmannaeyjar en Eyjafréttir segja Gates hafa komið í land um klukkan hálf fjögur í dag og skoðað sig um í Vestmannaeyjum.
