Fótbolti

Rosenborg með sjö stiga forskot

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hólmar Örn á æfingu með Rosenborg á Íslandi á dögunum.
Hólmar Örn á æfingu með Rosenborg á Íslandi á dögunum. vísir/valli
Rosenborg er með sjö stiga forskot á toppi norsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir 2-1 sigur á botnliði Sandefjord í dag.

Tobias P. Mikkelsen kom Rosenborg yfir strax á fimmtu mínútu og fimm mínútum síðar tvöfaldaði fyrrum FH-ingurinn Alexander Söderlund við öðru marki.

Það stefndi allt í stórsigur Rosenborgar, en staðan var 2-0 í hálfleik, Rosenborg í vil. Heimamenn í Sandefjord minnkuðu svo muninn með marki frá Paal Alexander Kirkevold á 62. mínútu.

Nær komust þeir ekki og lokatölur 2-1 sigur Rosenborgar sem er með sjö stiga forskot á toppi deildarinnar, en Sandefjord er á botninum með níu stig.

Hólmar Örn Eyjólfsson spilaði allan leikinn í vörn Rosenborg, en Matthías Vilhjálmsson, sem gekk í raðir Rosenborg í morgun, horfði á leikinn úr stúkunni. Hann vonast til að verða með Rosenborg í næsta leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×