Handbolti

Blankur Jicha grátbiður um að komast til Barcelona

Jicha og Alfreð.
Jicha og Alfreð. vísir/getty
Tékkinn Filip Jicha hefur óskað þess að komast frá Kiel til Barcelona þar sem hann er í fjárhagskröggum.

Barcelona vill fá Jicha til þess að fylla skarð Nikola Karabatic sem er kominn til PSG. Spænska félagið hefur boðið Jicha freistandi samning.

„Ég sef ekki lengur á nóttunni enda er þetta ekki staða sem ég vildi að kæmi upp. Ég elska Kiel og vildi klára feril minn hjá félaginu. Nú verð ég að biðja félagið um að selja mig sem fyrst til þess að hjálpa mér," sagði stórskyttan.

Jicha er í fjárhagsvandræðum eftir að hafa farið illa út úr fasteignabraski. Hann segist þurfa að eyða 40 prósent af launum sínum í að standa skil á þeim skuldum. Öryggið er meira hjá Barcelona og peningarnir líka meiri.

„Barca getur gefið mér samning til 2019 og líka öryggi þar sem ég mun halda fullum launum þar þó svo ég sé meiddur. Ég hef skyldum að gegna gagnvart fjölskyldu minni."

Hinn 33 ára gamli Jicha á eitt ár eftir af samningi sínum við Kiel og spurning hvort Alfreð Gíslason leyfi honum að fara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×