Golf

Rickie Fowler virkar í góðu formi fyrir opna breska

Rickie Fowler virkar í góðu formi fyrir Opna breska meistaramótið sem hefst í vikunni.
Rickie Fowler virkar í góðu formi fyrir Opna breska meistaramótið sem hefst í vikunni. vísir/getty
Bandaríkjamaðurinn Rickie Fowler fagnaði sigri á Opna skoska meistaramótinu í golfi en mótið er hluti af Evrópumótaröðinni. Margir sterkir kylfingar tóku þátt í mótinu og nýttu það sem undirbúning fyrir Opna breska meistaramótið sem hefst í vikunni.

Fowler var tveimur höggum á eftir Matt Kuchar þegar hann átti fjórar holur eftir en hann fékk fugl á þremur af síðustu fjórum holum vallarins og náði að skjótast fram úr Kuchar.

Þessi endasprettur hjá Fowler minnti óneitanlega á það þegar hann tryggði sér sigur á Players Championship mótinu í maí, þar sem hann lék síðustu sex holurnar á sex höggum undir pari.

"Þetta var mjög sérstakt. Mér leið vel og þetta er búin að vera frábær vika. Ég mun fá smá tíma í kvöld til að átta mig á þessu og gíra mig svo aftur upp í vikunni.

Þetta var stór sigur fyrir mig. Mér hafði ekki gengið alveg sem skildi síðan ég vann Players, þannig að það var gott að komast aftur á sigurbraut.

Ég þurfti að kafa djúpt eftir þessu. Ég var svekktur með að missa högg á 14. holu en ég vissi að ég ætti von á einhverjum fuglum. Ég var búinn að spila vel á síðustu fjórum holunum alla vikuna og sem betur fer kostaði 14. holan mig ekki miklu," sagði Fowler eftir sigurinn.

Fowler endaði í eina af fimm efstu sætunum í öllum fjórum risamótunum í fyrra.

"Það er eitt og annað sem þarf að laga fyrir komandi viku en ég hlakka til að spila aftur á St. Andrews, heimavelli golfsins," bætti Fowler við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×