Norska úrvalsdeildarfélagið Viking mun hafa hafnað þriðja tilboði þýska B-deildarfélagsins Kaiserslautern í íslenska landsliðsmanninn Jón Daða Böðvarsson.
Þetta er fullyrt á fréttavef Aftenbladet í Noregi en þýska félagið er sagt hafa boðið 58 milljónir króna í kappann sem og hlutdeild verði hann seldur frá Kaiserslautern í framtíðinni.
Samningur Jóns Daða rennur út í lok tímabilsins en engu að síður leggja forráðamenn Viking mikla áherslu á að halda honum innan sinna raða. Jón Daði hefur ekki hug á að framlengja samning sinn við félagið.
Jón Daði átti stórleik fyrir Viking sem vann 4-1 sigur á Álasundi á laugardag. Hann skoraði tvö mörk í leiknum og lagði upp eitt til viðbótar.
