Viðskipti innlent

Bill Gates á leið til landsins með fjölskyldu sína

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Bill og Melinda Gates eru á leið til landsins.
Bill og Melinda Gates eru á leið til landsins. Vísir/AFP
Bill Gates, stofnandi Microsoft hugbúnaðarfyrirtækisins og ríkasti maður heims, er á leið til landsins og mun dvelja á landinu í nokkra daga í sumarbústað á Suðurlandi með fjölskyldu sinni. Þetta hefur Vísir eftir áreiðanlegum heimildum.  

Fylgdarlið hans, lífverðir, matreiðslumeistarar og þjónar koma til landsins í dag til að undirbúa komu Gates. Hann mun nýta tímann á Íslandi til að skoða helstu náttúruperlur landsins í þyrlu, auk þess sem hann mun heimsækja nokkra staði á Suðurlandi og jafnvel víðar á landinu.

Gates hefur verið ríkasti maður heims sextán af síðustu 21 ári. Tímaritið Forbes metur auðævi hans á 79,2 milljarða dollara. Hann hætti í námi sínu við Harvard-háskóla á áttunda áratugnum til þess að stofna tölvufyrirtækið Microsoft og var framkvæmdastjóri þess um árabil.

Hann er einnig þekktur fyrir að vera mikill mannvinur og hefur heitið því að gefa langstærstan hluta auðæva sinna til góðgerðarmála þegar hann deyr. Stofnun Bill og Melinda Gates, sem hann stofnaði ásamt eiginkonu sinni, er stærsta góðgerðarstofnun í heimi og hefur Gates veitt um þrjátíu milljarða dollara til hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×