Íslenski boltinn

Ólsarar upp í "Pepsi-deildar" sæti eftir sigur á Ásvöllum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafsvíkur Víkingar eru komnir upp í annað sæti 1. deildar karla í fótbolta eftir 2-0 útisigur á Haukum á Ásvöllum í kvöld. HK vann á sama tíma 1-0 sigur á Gróttu.

Valgarður Gíslason, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum í kvöld og náði þessum skemmtilegu myndum hér fyrir ofan.

Spánverjinn William Dominguez da Silva lagði upp fyrra markið í fyrri hálfleik og skoraði það síðara sjálfur snemma í seinni hálfleiknum.

Ólsarar náðu þar með tveggja stiga forskoti á Fjarðabyggð og eru aðeins einu stigi á eftir Þrótti. Bæði Fjarðabyggð og Þróttur eiga leik inni um helgina.

Víkingar misstu annað sætið til Fjarðabyggðar eftir 1-0 tap í innbyrðisleik liðanna á dögunum en komust nú aftur á sigurbraut og hafa nú unnið sex af síðustu átta leikjum sínum í 1. deildinni.

Haukarnir gátu unnið fimmta heimaleik sinn í röð í kvöld en náðu sér ekki strik á móti öflugu Víkingsliði.

Kenan Turudija kom Víkingi í 1-0 strax á 13. mínútu eftir laglegan undirbúning William Dominguez da Silva og þannig var staðan þar til á 56. mínútu þegar varmaðurinn Kristófer Eggertsson lagði upp mark fyrir umræddan William Dominguez da Silva.

Þetta var fyrsti útisigur Víkingsliðsins síðan 13. júní og aðeins annar sigur liðsins í sex útileikjum í 1. deildinni í sumar.

Viktor Unnar Illugason skoraði eina mark leiksins á 72. mínútu þegar HK vann 1-0 sigur á Gróttu í Kórnum. Markið skoraði Viktor með laglegu skoti fyrir utan teig.

Upplýsingar um markaskora eru frá vefsíðunni fótbolti.net.

Víkingurinn Brynjar Kristmundsson í leiknum á Ásvöllum í kvöld.Vísir/Valli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×