Fótbolti

Elías Már skoraði tvö og tryggði Vålerenga sigur | Aron skoraði einnig

Anton Ingi Leifsson skrifar
Elías Már fagnar marki í leik með Keflavík á síðasta tímabili.
Elías Már fagnar marki í leik með Keflavík á síðasta tímabili. vísir/elías
Elías Már Ómarsson var hetja Vålerenga þegar liðið bar sigurorð af Odd Ballklubb, 3-2, í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Elías Már kom Vålerenga yfir á 22. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik. Oliver Occean jafnaði svo metin fyrir Odd í síðari hálfleik, en Elías skoraði sigurmarkið fimm mínútum fyrir leikslok.

Keflvíkingurinn spilaði allan leikinn, en Vålerenga er eftir sigurinn í þriðja sæti deildarinnar með 27 stig. Rosenborg er á toppnum með 33 stig.

Álasund vann 4-2 sigur á Mjöndalen í sömu deild í dag. Víkingurinn, Aron Elís Þrándarson, skoraði þriðja mark Álasund þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum.

Mjöndalen var 2-0 yfir í hálfleik þökk sé Christian Gauseth og Joachim Solberg Olsen, en Leke James skoraði tvívegis í síðari hálfleik og virtist leikurinn vera enda með jafntefli.

Aron skoraði þriðja mark Álasundar tveimur mínútum fyrir leikslok og Carl Björk bætti við fjórða markinu í uppbótartíma. 4-2 sigur Álasund.

Aron Elís Þrándarson spilaði allan leikinn fyrir Álasund og Daníel Leo Grétarsson fyrstu 58 mínúturnar. Álasund er í tíunda sætinu með nítján stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×