Körfubolti

Stelpurnar unnu þær dönsku í framlengingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landsliðið sem spilaði í dag.
Landsliðið sem spilaði í dag. Mynd/Facebook-síða KKÍ
Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta vann sex stiga sigur á Dönum, 66-60, eftir framlengdan leik á æfingamóti í Danmörku í dag en þetta var fyrsti leikur íslenska liðsins af þremur í Kaupmannahafnarferðinni.

Danir náðu að tryggja sér framlengingu með því að skora síðustu körfu venjulegs leiktíma en íslensku stelpurnar voru ákveðnar að tapa ekki öðrum landsleiknum í röð á móti þeim dönsku í framlengingu og unnu hana nokkuð örugglega, 15-9.

Tvær þriggja stiga körfur á skömmum tíma í framlengingunni, frá þeim Helenu Sverrisdóttur og Söru Rún Hinriksdóttir, vógu þungt en þær skoruðu saman fjórar þriggja stiga körfur í fjórða leikhluta og framlengingunni.

Helena var stigahæst í íslenska liðinu með 21 stig og gældi líka við þrennuna því hún var einnig með 8 fráköst og 8 stolna bolta. Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 11 stig og Gunnhildur Gunnarsdóttir var með 9 stig.

Íslensku stelpurnar voru lengi í gang í leiknum, níu stigum undir eftir fyrsta leikhlutann (9-18) og sjö stigum undir í hálfleik, 20-27.

Íslenska liðið átti mjög góðan þriðja leikhluta sem liðið vann 18-11 og var þar með búið að jafna leikinn fyrir lokaleikhlutann. Íslenska liðið komst þar yfir undir lokin en þær dönsku tókst að tryggja sér framlengingu.

Helena fór í gang í þeim seinni þar sem hún skoraði 16 af 21 stigi sínu en Sara Rún var líka með öll ellefu stigi sín í seinni hálfleiknum. Saman voru þær stöllur því með 27 stig í seinni hálfleiknum og það gaf íslenska liðinu mikið.

Þetta var þrítugasti landsleikur íslenska kvennalandsliðsins undir stjórn Ívars Ásgrímssonar og í fyrsta sinn í fjórum tilraunum sem hann fagnar sigri á móti Dönum.

Ísland-Danmörk 66-60 (51-51)

Stig Íslands:

Helena Sverrisdóttir 21 stig, 8 fráköst, 8 stolnir boltar

Sara Rún Hinriksdóttir 11 stig

Gunnhildur Gunnarsdóttir 9 stig, 5 fráköst, 3 stolnir boltar

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 8 stig, 5 fráköst

Margrét Rósa Hálfdanardóttir 6 stig, 9 fráköst, 3 stoðsendingar

Bryndís Guðmundsdóttir 6 stig

Sandra Lind Þrastardóttir 3 stig

Ragna Margrét Brynjarsdóttir 2 stig, 4 fráköst, 3 stoðsendingar

Sandra Lind Þrastardóttir og Björg Einarsdóttir léku báðar sinn fyrsta landsleik í þessum sigurleik á Dönum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×