Fótbolti

Tyrkneskt félag bauð í Hannes Þór

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. Vísir/Ernir
Hannes Þór Halldórsson gæti verið á leið frá norska B-deildarliðinu Sandnes Ulf. Tom Rune Espedal, íþróttastjóri félagsins, staðfestir við Sandnesposten í Noregi að félagið hafi fengið tilboð í Hannes frá tyrknesku félagi.

Mbl.is greindi frá þessu fyrr í dag en Espedal sagði í samtali við Sandnesposten að ekkert væri frágengið.

„Það er rétt að við erum búnir að fá formlegt tilboð í Hannes. Helst myndum vil vilja að hann myndi klára tímabilið hjá okkur en að sama skapi berum við virðingu fyrir því að Hannes hefur mikinn metnað og vill fara til stærra félags,“ sagði Espedal.

„Það mikilvægasta er að hugsa um hagsmuni félagsins og þó svo að það sé komið tilboð þá er enn langt í land í öllu þessu ferli.“

Hannes Þór er samningsbundinn Sandnes Ulf til loka tímabilsins en opnað verður á félagaskipti í flestum löndum í Evrópu þann 1. júlí. Samkvæmt heimildum norska miðilsins hafa nú 2-3 félög áhuga á landsliðsmarkverðinum íslenska.

Tyrkneska félagið er þó það eina sem hefur lagt fram tilboð. „Við erum að íhuga tilboðið. Þannig er staða mála nú,“ sagði Espedal.

Þess má geta að Ísland og Tyrkland eru saman í riðli í undankeppni EM 2016. Liðin mættust á Laugardalsvelli síðastliðið haust og þar stóð Hannes Þór í marki Íslands í 3-0 sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×