Norska úrvalsdeildarliðið Viking Stavanger komst áfram í átta liða úrslit bikarkeppninnar í fótbolta þar í landi í kvöld þegar það marði sigur gegn 2. deildar liði Kristiansund eftir vítaspyrnukeppni.
Jón Daði Böðvarsson lagði upp fyrra mark Viking í leiknum fyrir nígeríska framherjann Suleiman Abdullahi á 61. mínútu, en Kristianstund jafnaði metin með marki Sverre Ökland átta mínútum síðar, 1-1.
Jón Daði, sem Aftonbladet sagði vera á förum frá Viking í dag, var í byrjunarliðinu líkt og fyrirliðinn Indriði Sigurðsson og Steinþór Freyr Þorsteinsson.
Leikurinn fór í framlengingu og þar héldu Víkingarnir væntanlega að þetta væri komið þegar annar 19 ára gamall nígerískur framherji, Samuel Adegbenro, kom gestunum aftur yfir, 2-1, á 108. mínútu.
En 2. deildar liðið gafst ekki upp og jafnaði metin, 2-2, á lokamínútu fyrri hálfleiks framlengingarinnar. Það gerði Espen Næss Lund.
Ekkert var skorað í seinni hálfleik framlengingarinnar og þurfti því að grípa til vítaspyrnukeppni.
Þar fóru leikmenn 2. deildar liðs Kristianstund á taugum og brenndu af öllum þremur spyrnum sínum. Magne Hoseth, Veton Berisha og Indriði Sigurðsson skoruðu úr spyrnum Viking og sendu liðið áfram.
Viking áfram í bikarnum eftir vítaspyrnukeppni gegn 2. deildar liði

Tengdar fréttir

Hólmar Örn lagði upp mark í stórsigri Rosenborg í bikarnum
Toppliðið norsku úrvalsdeildarinnar komst auðveldlega í átta liða úrslit bikarkeppninnar.