Handbolti

Strákarnir okkar heppnir með riðil á EM í handbolta 2016

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska handboltalandsliðið lenti í nokkuð þægilegum riðli á EM í handbolta 2016 þegar dregið var í Kraká í Póllandi í dag. Evrópumótið í Pólland fer fram 17. til 31. janúar 2016.

Ísland er í B-riðli með Króatíu, Hvíta-Rússlandi og Noregi en þetta er einn léttasti riðilinn í riðlakeppninni.

Komist Ísland áfram upp úr riðlinum lendir íslenska liðið í milliriðli með þremur efstu liðunum í riðli A sem inniheldur Frakkland, Pólland, Makedóníu og Serbíu.

Aron Kristjánsson og lærisveinar hans í íslenska handboltalandsliðinu fá því þægilegt verkefni á níunda Evrópumóti íslenska liðsins en liðið hefur verið með á öllum EM síðan 2000.

Fyrir tveimur árum var Ísland í riðli með Spáni, Ungverjalandi og Noregi en á EM 2012 var íslenska liðið í riðli með Króatíu, Slóveníu og Noregi.  Ísland er því með Noregi í riðli á þriðja Evrópumótinu í röð. Íslenska liðið mun spila leiki sína í Katowice í suður Póllandi.

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins, getur verið nokkuð sáttur með sinni riðil en danska liðið er í riðli með Ungverjalandi, Rússlandi og Svartfjallalandi

Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska landsliðsins, er aftur á móti í mjög erfiðum riðli með Spáni, Svíum og Slóveníu.

Þrjú efstu liðin í hverjum riðli komast áfram í milliriðilinn en neðsta liðið er úr leik.

Riðlarnir á Evrópumótinu í handbolta 2016:

A-riðill í Kraká í suður Póllandi

Frakkland

Pólland

Makedónía

Serbía

B-riðill í Katowice í suður Póllandi

Króatía

Ísland

Hvíta-Rússland

Noregur

C-riðill í Wroclaw í suðvestur Póllandi

Spánn

Svíþjóð

Þýskaland

Slóvenía

D-riðill í Gdansk í norður Póllandi

Danmörk

Ungverjaland

Rússland

Svartfjallaland




Fleiri fréttir

Sjá meira


×