Handbolti

Kiel komið með níu fingur á bikarinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alfreð Gíslason bætir væntanlega enn einum meistaratitlinum í safnið um næstu helgi.
Alfreð Gíslason bætir væntanlega enn einum meistaratitlinum í safnið um næstu helgi. vísir/getty
Kiel fór langt með að tryggja sér þýska meistaratitilinn í handbolta með tveggja marka sigri á Hannover-Burgdorf, 26-28, í næstsíðustu umferð úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar, sem töpuðu fyrir Veszprém í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu um helgina, eru nú með 63 stig, tveimur meira en Rhein-Neckar Löwen þegar ein umferð er eftir.

Þá er markatala Kiel mun betri, þrátt fyrir 16 marka sigur Löwen í kvöld. Kiel er með 237 mörk í plús en Ljónin frá Mannheim 212. Það þarf því ansi mikið að ganga á ef Kiel verður ekki þýskur meistari fjórða árið í röð. Kiel mætir Lemgo í lokaumferðinni á meðan Löwen sækir Magdeburg heim.

Kiel var í vandræðum framan af leik í kvöld og lentu mest sjö mörkum undir í fyrri hálfleik, 12-5. Meistararnir löguðu stöðuna fyrir hlé en staðan í hálfleik var 15-13, Hannover í vil. Kiel seig svo fram úr í seinni hálfleik og vann að lokum tveggja marka sigur, 26-28.

Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk fyrir Kiel.

Ólafur Guðmundsson gerði þrjú mörk fyrir Hannover og Rúnar Kárason eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×