Fótbolti

Henry: Xavi er herra Barcelona

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Glæstum ferli Xavi Hernández með Barcelona lýkur á laugardagskvöldið þegar hann spilar sinn síðasta leik fyrir liðið.

Það er við hæfi að það sé úrslitaleikur Meistaradeildarinnar þar sem liðið á möguleika á þrennunni, en Xavi hefur unnið 24 titla á 17 árum með Börsungum.

„Fyrir mér er hann herra Barcelona eins og Tony Adams var herra Arsenal,“ segir Thierry Henry, fyrrverandi samherji Xavi hjá Barcelona sem starfar sem sparkspekingur Sky Sports í dag.

„Hann hefur unnið allt sem hægt er að vinna. Xavi er eins og hljómsveitarstjóri að stýra sinfóníu. Þannig er hann fyrir mér.“

„Hann er týpan sem varð pirraður ef hann missti boltann á æfingu. Það gerði Xavi alveg brjálaðan.“

„Maður getur ekki annað en talað af virðingu um manninn því hann er ekki leikmaðurinn sem gaf boltann bara til hliðar eða aftur á markvörðinn.“

„Xavi reyndi alltaf að spila boltanum fram á við því hann hefur svo mikla yfirsýn. Hann elskar Barcelona og er stuðningsmaður liðsins. Fyrir mér er hann því herra Barcelona,“ segir Thierry Henry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×