Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Lúxemborg 54-59 | Silfrið niðurstaðan

Ingvi Þór Sæmundsson í Laugardalshöll skrifar
Gunnhildur skoraði átta stig í dag.
Gunnhildur skoraði átta stig í dag. vísir/stefán
Ísland varð að gera sér silfrið að góðu á Smáþjóðaleikunum eftir fimm stiga tap fyrir Lúxemborg, 54-59, í dag.

Íslenska liðið spilaði á köflum mjög vel í leiknum, sérstaklega í vörninni, en inn á milli komu langir kaflar þar sem ekkert gekk upp í sókninni. Til að mynda var þriggja stiga nýting Íslands aðeins 18,5% gegn 36,0% hjá Lúxemborg. Það réði kannski mestu um úrslit leiksins

Lúxemborg pressaði íslenska liðið stíft en þrátt fyrir það voru það gestirnir sem töpuðu boltanum í gríð og erg í upphafi leiks, alls 13 sinnum í fyrri hálfleik.

Lið Lúxemborg komst í 4-7 í upphafi leiks en þá náði íslenska liðið fínum tökum á leiknum.

Íslandi gekk vel að leysa pressu Lúxemborgar og þótt liðið væri ekki að hitta vel voru íslensku stelpurnar duglegar í sóknarfráköstunum og tóku alls átta slík í 1. leikhluta. Hildur Björg Kjartansdóttir tók fjögur þeirra.

Staðan að honum loknum var 18-16, Íslandi í vil. Íslenska liðið byrjaði 2. leikhluta svo frábærlega. Lúxemborg skoraði reyndar fyrstu körfuna en Ísland svaraði henni með 10 stigum í röð og þegar tæpar sex mínútur voru eftir af 2. leikhluta var staðan 28-18, Íslandi í vil.

Þá hrökk sóknarleikurinn hins vegar í baklás og íslenska liðið skoraði aðeins tvö stig til viðbótar í fyrri hálfleik.

Það var þó bót í máli að gestirnir hittu sama og ekki neitt og náðu þar af leiðandi ekki að taka fram úr íslenska liðinu sem hefði að ósekju mátt keyra meira á körfuna í fyrri hálfleiknum.

Helena Sverrisdóttir hafði hægt um sig í stigaskorun í fyrri hálfleik, skoraði fimm stig, en var hins vegar dugleg að finna samherja sína í opnum færum og var komin með sex stoðsendingar þegar fyrri hálfleikur var allur. Staðan að honum loknum var 30-26, Íslandi í vil.

Þriðji leikhluti var eign Lúxemborgar. Þær fóru loks að hitta fyrir utan og settu niður fimm þriggja stiga körfur í leikhlutanum. Í ofanálag tapaði íslenska liðið boltanum of oft.

Líkt og í seinni hluta 2. leikhluta gekk sóknarleikurinn illa og íslenska liðinu gekk bölvanlega að koma stigum á töfluna.

Lúxemborg vann 3. leikhluta 13-23 og var sex stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 43-49.

Gestirnir juku muninn í níu stig, 43-52, í byrjun 4. leikhluta og voru með fín tök á leiknum. En hægt og bítandi fór íslenska liðið að saxa á forskotið þökk sé afbragðs varnarleik og flottu framlagi frá Söru Rún Hinriksdóttur sem skoraði sex stig á skömmum tíma.

Ísland skoraði 10 stig í röð og komst einu stigi yfir, 53-52. En þá hrökk sóknin aftur í baklás og stelpurnar skoruðu aðeins eitt stig á síðustu fjórum mínútum leiksins.

Á meðan setti Lúxemborg niður stór skot og vann að lokum fimm stiga sigur, 54-59. Svekkjandi tap en íslenska liðið gerði margt mjög vel í leiknum og hefði að öllum líkindum unnið leikinn með betri hittni.

Helena var stigahæst í íslenska liðinu með 10 stig en hún gaf auk þess sjö stoðsendingar.

Hildur Björg og Bryndís Guðmundsdóttir komu næstar með níu stig hvor en sú fyrrnefnda tók auk þess 12 fráköst.

Nadia Mossong skoraði mest í liði Lúxemborgar, eða 17 stig. Leikstjórnandinn Cathy Scmhit átti einnig afbragðs leik með 15 stig, fimm fráköst og 10 stoðsendingar.

Ívar: Ánægður með þróunina í varnarleiknum

"Það vantaði að setja þessi stóru skot niður í seinni hálfleik," sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Íslands, eftir tapið fyrir Lúxemborg í leik um gullverðlaun á Smáþjóðaleikunum í dag.

"Þetta var gríðarlegur baráttuleikur og varnarleikur beggja liða var mjög góður. Það vantaði að setja skotin niður til að brjóta þær niður. Það er oft það sem skilur á milli í svona leikjum.

"Þær settu niður þrista sem þær eru kannski ekki vanar að setja. Á meðan fengum við galopin skot sem duttu ekki. Við brenndum líka af mikilvægum vítum í lokin," sagði Ívar sem var ánægður með varnarleik Íslands í dag.

"Við höfum talað um að allir leikmenn leggi sig fram og spili hörkuvarnarleik og það gerðu það allir. Þannig að ég var mjög ánægður með stelpurnar og fannst þær gera það sem fyrir þær var lagt.

"Þær skoruðu mikið á okkur fyrstu 3-4 mínúturnar í 3. leikhluta en eftir það náðum við að stoppa þær.

"Mér fannst brotið á Sigrúnu (Sjöfn Ámundadóttir) undir lokin þegar hún missti boltann. Það var viss vendipunktur í leiknum. Það eru þessi litlu atriði sem skipta svo miklu máli," sagði Ívar og bætti við:

"Ég er ánægður með þróunina í varnarleiknum og mér finnst við vera farnar að spila varnarleik eins og við viljum að hann sé spilaður.

"Nú þurfum við kannski að vinna betur í sóknarleiknum. Við höfum lagt ofuráherslu á varnarleikinn og að þróa hann og það hefur gengið vel upp," sagði Ívar að lokum.

Gunnhildur: Yfir í öllum tölfræðiþáttum nema þriggja stiga nýtingu

Gunnhildur Gunnarsdóttir sagði að slæm skotnýting hefði orðið íslenska liðinu að falli í tapinu fyrir Lúxemborg á Smáþjóðaleikunum í dag.

"Þetta var mjög svekkjandi tap þar sem við vorum að leggja okkur allar fram í vörninni. En það vantaði að nýta skotin betur til að klára leikinn," sagði Gunnhildur.

"Eins og ég sagði inni í klefa áðan vorum við yfir í öllum tölfræðiþáttum nema þriggja stiga nýtingu. Þær settu skotin sín niður, en ekki við, og það hélt þeim inni í leiknum því við spiluðum mjög góða vörn."

Gestirnir frá Lúxemborg pressuðu íslenska liðið stíft og reyndu að gera því erfitt fyrir að koma boltanum upp völlinn. En hvernig fannst Gunnhildi íslenska liðinu ganga að ráða við pressu Lúxemborgar?

"Við leystum hana misvel. Við leystum hana vel þegar við náðum að spila boltanum á milli okkur. En svo duttum við niður og þá er erfitt að leysa svona pressu. Þær eru með gott varnarlið eins og við.

"Mér fannst við ekki tapa boltanum oft en við vorum kannski full ragar að taka af skarið og rekja boltann upp völlinn," sagði Gunnhildur en framundan hjá íslenska liðinu er æfingamót í Danmörku í byrjun júlí og svo undankeppni EM í haust.

"Við verðum að halda áfram að æfa vel og gera betur. Við ætluðum að taka gullið hérna í dag á heimavelli en það tókst ekki.

"Þetta minnti óþægilega á leikinn gegn Lúxemborg fyrir tveimur árum þegar við spiluðum vel en hittum ekki neitt," sagði Gunnhildur að lokum en hún skoraði átta stig í leiknum.

Tölfræði leiks:

Ísland - Lúxemborg54-59 (18-16, 12-10, 13-23, 11-10)

Ísland: Helena Sverrisdóttir 10/4 fráköst/7 stoðsendingar, Bryndís Guðmundsdóttir 9, Hildur Björg Kjartansdóttir 9/12 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 8, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 7/4 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 6, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 5/8 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 0, Pálína María Gunnlaugsdóttir 0, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 0, Petrúnella Skúladóttir 0, Auður Íris Ólafsdóttir 0.

Lúxemborg: Nadia Mossong 17/6 fráköst, Cathy Schmit 15/5 fráköst/10 stoðsendingar, Lisa Jablonowski 13/11 fráköst, Tessy Hetting 6/5 fráköst, Magaly Meynadier 5/5 fráköst, Kim Bruck 3, Nadia Marcus 0, Lou Mathieu 0, Michele Orban 0, Jil Haentges 0, Liz Schmitz 0, Laure Diederich 0.

Leiklýsing: Ísland - Lúxemborg

Leik lokið | 54-58 | Sigrún klúðrar enn einu skotinu. Schmit er send á línuna. Setur annað  vítið niður. Lúxemborg vinnur leikinn 54-59.

40. mín | 54-57 | Tessy Hetting er send á línuna. Setur annað vítið niður. Tveggja sókna leikur, tæpar níu sekúndur eftir. Ívar tekur leikhlé.

40. mín | 54-57 | Hildur Björg tekur sitt sjöunda sóknarfrákast og kemur sér á línuna. Setur annað vítið niður.

40. mín | 53-57 | Ísland vinnur boltann en Sigrún tapar honum strax aftur. Þvílík innkoma! Eða ekki. Mossong skorar og kemur Lúx fjórum stigum yfir. Ívar tekur leikhlé.

38. mín | 53-55 | Sigrún brennir af þremur vítum í röð. Þau litu öll illa út.

37. mín | 53-52 | Sara hefur tekið leikinn yfir. Hún skorar og svo bætir Hildur Björg tveimur stigum á töfluna. Ísland er komið yfir! Varnarleikurinn er frábær þessa stundina og gestirnir finna enga leið.

35. mín | 49-52 | Helena skorar og minnkar muninn í fimm stig. Sara Rún skorar svo eftir hraðaupphlaup og munurinn er skyndilega orðinn aðeins þrjú stig. Sara hefur komið sterk inn í 4. leikhluta.

33. mín | 45-52 | Sara Rún dansar með boltanum upp að körfunni og skorar sín fyrstu stig. Glæsilega gert! Íslenska liðið þarf að gera meira af þessu; þegar þær hafa keyrt að körfunni hefur það yfirleitt gengið vel.

31. mín | 43-52 | Jablonowski skorar körfu góða og setur vítið að auki niður. Helena tapar svo boltanum í næstu sókn. Þetta byrjar ekki vel.

3. leikhluta lokið | 43-49 | Gestirnir tóku þennan leikhluta 13-23. Þeir fóru loks að hitta fyrir utan og til að bæta gráu ofan á svart tapaði íslenska liðið boltanum full oft. Bryndís er stigahæst hjá Íslandi með níu stig, Helena og Gunnhildur koma næstar með átta stig hvor.

29. mín | 43-46 | Margrét tapar boltanum. Ísland er búið að tapa 15 boltum, Lúx 16. Helena er utan vallar þessa stundina.

27. mín | 43-44 | Schmit setur niður annan þrist. Þeir eru farnir að detta hjá Lúx sem er ekki gott mál. Gunnhildur keyrir upp að körfunni og skorar. Minnkar muninn í eitt stig. Meira af þessu, takk!

25. mín | 39-38 | Bryndís kemur Íslandi yfir með því að setja niður opið stökkskot en leikstjórnandi Lúx, Cathy Schmit, svarar með þristi. Helena svarar í sömu mynt og kemur Íslandi aftur yfir. Þetta er aðeins að opnast.

22. mín | 32-31 | Lúxemborg skorar fimm fyrstu stig seinni hálfleiksins en Margrét jafnar með sinni annarri körfu.

Seinni hálfleikur hafinn | 30-26 | Sjáum hvernig íslenska liðinu gengur í sóknarleiknum í seinni hálfleik.

Hálfleikur | 30-26 | Nú rétt í þessu var Hildur Sigurðardóttir heiðruð fyrir framlag hennar til íslenska landsliðsins en hún lagði sem kunnugt er skóna á hilluna í vor eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með Snæfelli.

Fyrri hálfleik lokið | 30-26 | Bryndís brýtur ísinn sem var orðinn ansi þykkur. Mikilvæg karfa. Bryndís er stigahæst í íslenska liðinu með sjö stig. Helena, Sigrún og Margrét eru með fimm stig en Helena er auk þess búin að gefa sex stoðsendingar. Það er spurning hvort íslenska liðið megi ekki keyra meira á körfuna - það treystir full mikið á langskotin finnst mér. Lúxemborg er búin að tapa boltanum 13 sinnum, Ísland átta sinnum. Lúx er að vinna frákastabaráttuna 22-18.

18. mín | 28-21 | Ísland hefur ekki skorað í þrjár og hálfa mínútu. Það er full löng bið. Það er þó bót í máli að gestirnir hitta sama og ekki neitt.

16. mín | 28-18 | Nadia Mossong fær dæmd á sig skref. Ellefti tapaði boltinn hjá gestunum sem hitta ekki neitt. Íslenska liðið má þó frákasta betur - átta sóknarfráköst hjá Lúxemborg er full mikið.

15. mín | 28-18 | Helena kemur sér á línuna og setur bæði vítin niður. Hún skoraði áðan sína fyrstu körfu þegar hún setti niður þrist. Tíu stiga munur. Þetta viljum við sjá. Lúxemborg er aðeins búin að skora tvö stig í 2. leikhluta.

13. mín | 23-18 | Jablonowski kastar boltanum út af og er tekin af velli í kjölfarið. Sigrún Sjöfn setti áðan niður þrist eftir stoðsendingu Helenu, hennar sjöttu í leiknum.

12. mín | 20-18 | Jablonowski skorar fyrstu stig 2. leikhluta en Gunnhildur kvittar fyrir með baráttukörfu.

1. leikhluti búinn | 18-16 | Lúxemborg skoraði þrjú síðustu stig leikhlutans. Gestirnir pressa íslenska liðið stíft en hafa sjálfar tapað boltanum sjö sinnum en Ísland þrisvar. Íslenska stelpurnar eru ekki að hitta neitt sérstaklega vel en hafa hins vegar tekið átta sóknarfráköst. Hildur Björg hefur tekið fjögur þeirra. Bryndís og Margrét eru stigahæstar í íslenska liðinu með fimm stig hvor.

9. mín| 18-13 | Lúxemborg tekur leikhlé. Sigrún Sjöfn skoraði áðan sín fyrstu stig eftir enn eina stoðsendingu Helenu.

8. mín | 16-13 | Bryndís setur niður þrist eftir góðan undirbúning Helenu sem er komin með þrjár stoðsendingar. Lúxemborg er þegar búin að tapa boltanum sjö sinnum. Þjálfarar liðsins eru langt frá því að vera sáttir með gang mála.

6. mín | 13-11 | Hildur setur niður tvö vítaskot. Hún er komin með fjögur stig og tvö sóknarfráköst. Pálína kemur inn fyrir Gunnhildi.

4. mín | 5-7 | Hildur setur niður stökkskot eftir fjögur stig í röð frá gestunum sem pressa íslenska liðið stíft.

2. mín | 4-3 | Lúxemborg byrjar á þristi en Bryndís og Margrét svara með tveimur körfum.

Leikur hafinn | 0-0 | Helena, Hildur, Margrét, Gunnhildur og Bryndís byrja inn á í íslenska liðinu.

Fyrir leik: Þetta hef ég aldrei séð áður! Leikmenn Lúxemborgar fluttu þjóðsönginn sjálfar, án nokkurs undirleiks! Jahá. Þetta var hefðbundið hjá Íslandi.

Fyrir leik: Lisa Jablonowski, leikmaður númer 11 hjá Lúxemborg, hefur verið öflug í fyrstu tveimur leikjunum. Hún gerði 17 stig, tók 10 fráköst og stal boltanum sex sinnum í sigrinum á Mónakó, 88-55. Jablonowski skoraði svo 13 stig, tók átta fráköst og gaf fjórar stoðsendingar þegar Lúxemborg vann Möltu, 64-42, á miðvikudaginn. Cathy Schmit hefur einnig átt fyrirtaks leiki; hún skoraði 13 stig, gaf níu stoðsendingar og stal boltanum sjö sinnum í sigrinum á Mónakó og var með 19/5/5 línu í sigrinum á Möltu.

Fyrir leik:Margrét Rósa Hálfdanardóttir hefur komið mjög sterk inn á í báðum leikjum Íslands og nýtt sínar mínútur vel. Margrét skoraði 10 stig í fyrsta leiknum gegn Möltu, öll á síðustu 12 mínútum. Margrét, sem leikur í háskólaboltanum vestanhafs, fagnaði 21 árs afmæli sínu þennan sama dag. Hún skoraði svo 14 stig í sigrinum á Mónakó, þar sem hún hitti úr sex af níu skotum sínum.

Fyrir leik:Ívar Ásgrímsson, þjálfari landsliðsins, er þessa stundina í viðtali á RÚV. Hann er að stýra kvennalandsliðinu á öðrum Smáþjóðaleikunum en hann fór einnig með liðið á leikana í Andorra 2005. Tveir leikmenn eru enn í liðinu síðan þá; Helena og Bryndís, sem eru báðar að taka þátt á sínum fjórðu Smáþjóðaleikum.

Fyrir leik: Í samtali við Fréttablaðið fyrir Smáþjóðaleikana sagðist Helena enn mun eftir leiknum gegn Lúxemborg 2013: „Við munum allar eftir þessu. Okkur fannst við vera miklu betri í leiknum en við hittum ekki neitt og það gekk einhvern veginn ekkert upp þennan dag," sagði Helena.

„Við höfum talað um það okkar í milli að það sé kominn tími á vinna þessa leika,“ bætti hún við. „Við höfum verið í 2. sæti síðan ég byrjaði í þessu. Þetta eru fjórðu leikarnir mínir og ég hef alltaf fengið silfur. Það er kominn smá pirringur í okkur og okkur langar að vinna þetta loksins.“

Fyrir leik: Ísland og Lúxemborg mættust einnig í úrslitaleik um gullið á Smáþjóðaleikunum fyrir tveimur árum sem fóru fram í Lúxemborg. Þar höfðu heimakonur betur, 59-62. Sjö af tólf leikmönnum Íslands sem voru í hópnum 2013 eru með í ár; Helena, Bryndís, Petrúnella, Hildur Björg, Gunnhildur, Sara Rún og Pálína. Helena var atkvæðamest í íslenska liðinu í leiknum, með 17 stig og 16 fráköst. 

Fyrir leik: Ísland byrjaði á því að vinna Möltu, 83-73, þar sem Helena Sverrisdóttir, sem er að keppa á sínum fjórðu Smáþjóðaleikum, skoraði 22 stig og gaf sex stoðsendingar. Á fimmtudaginn vann íslenska liðið svo öruggan 26 stiga sigur á Mónakó, 81-55. Helena var einnig stigahæst hjá Íslandi í þeim leik, með 16 stig. Hún tók auk þess níu fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Fyrir leik: Komiði sæl og blessuð. Hér verður leik Íslands og Lúxemborgar lýst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×