Færsla Hildar er enn eitt innleggið inn í byltinguna sem hefur átt sér stað á Beauty tips undanfarnar vikur og gengur undir nafninu #þöggun.
Í bréfinu er maðurinn nafngreindur en Hildur segist ekki óttast að nafngreina hann enda hafi hún ekkert að fela. Heimsóknin hafi orsakað viðstöðulausan hroll, klígjutilfinningu, flökurleika og fasta grettu á andlitinu. Hún segir að grátköst og ófáar sturtuferðir hafi fylgt í kjölfar læknisheimsóknarinnar.
Sjá einnig: Deila reynslu af nauðgunum og misnotkun
Fleiri konur kannast við lækninn
Hildur lýsti upplifun sinni af heimsókninni til kvensjúkdómalæknsins í bréfinu en hér að neðan hefur nafni hans eða upphafsstöfum verið skipt út fyrir stafinn X. Tugir stúlkna taka undir með Hildi í ummælum undir færslu hennar og segjast hafa lent í sama manni.

Hún tók jafnframt fram að hún hafi aldrei fyrir þessa stund átt erfitt með að fara í kvenskoðanir eða þótt þær óþægilegar á nokkurn hátt. Öðru máli gegni um umrædda skoðun en það tók Hildi þrjú ár að safna þeim styrk sem þurfti til að koma upplifunin sinni og kvörtun í orð.
Sjá einnig: Hundruð kvenna segja frá ofbeldi
„Ég fann fyrir hárinu á honum á innanverðum lærunum“
„Ég lagðist á bekkinn og á meðan á skoðuninni stóð tók X tvisvar sinnum með berum höndum um rasskinnarnar á mér til að draga mig nær sér. X beygði andlitið ítrekað niður að kynfærum mínum meðan ég lá á bekknum, en hann var í öll skiptin að teygja sig niður á gólf til að sækja e-ð eða skila einhverju.
Nálægð andlits við kynfæri var svo mikil að mér var í öll skiptin verulega brugðið; ég fann fyrir hárinu á honum á innanverðum lærunum og upp við kynfærin. Hann sparaði hanskanotkun verulega, notaði m.a. bera hönd til að halda í sundur ytri börmum meðan hann setti í mig gogginn. Tvisvar sinnum strauk hann hendinni niður lærið og sköflunginn á mér.

Landlæknir tók við erindi Hildar og hafði samband við téðan kvensjúkdómalækni sem sagði sig ekki hafa gert neitt rangt. Samkvæmt færslu Hildar á Beauty tips var landlæknir honum um margt ósammála og nefnir hún þar til að mynda að hann hafi ítrekað mikilvægi hanskanotkunar.
Nafnbirtingar ódæmdra manna ólögmætar
Mikil umræða fór í gang á Beauty tips um nafnbirtingu meintra nauðgara og kynferðisafbrotamanna í kjölfar byltingar á Beauty tips þar sem hundruð stúlkna birtu sögur um nauðganir og kynferðisafbrot undir myllumerkinu þöggun.
Í kjölfarið birtu nokkrar stúlkur nöfn manna sem þær vildu skila skömminni til. Refsivert er að fullyrða um refsivert athæfi einstaklings opinberlega nema að fyrirliggi dómur þess efnis. Fréttablaðið ræddi í síðustu viku við lögmann þriggja manna sem hafa leitað réttar síns vegna ummælanna.
Sjá einnig: Leita réttar síns vegna ummæla um þá á Beauty tips
Hildur birti upphaflega sögu sína á Bland.is þar sem hún lýsti hegðun mannsins en nafngreindi hann ekki. Í kjölfarið segir hún að þrjátíu konur hafi haft samband við sig eftir að hafa lesið söguna en þær höfðu farið í rannsókn hjá sama manni og þekktu lýsingarnar. Maðurinn er nú hættur störfum vegna aldurs.