Innlent

Segir kjarabætur lægst launuðu ekki bara vandamál ríkisins

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Vísir/GVA
Fjármála og efnahagsráðherra segir að það eigi ekki bara að vera vandamál ríkisins að tryggja kjarabætur fyrir þá lægst launuðu. Atvinnurekendur verði að leggja sitt af mörkum.



Þingmenn lýstu yfir þungum áhyggjum af stöðunni á vinnumarkaðnum á Alþingi í dag. Þá var Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, spurður hvernig stjórnvöld ætli að bregðast við.



„Varðandi það sem að ríkisstjórnin getur gert til þess að skapa hér betri stöðu fyrir gerð kjarasamninga. Já, skattkerfin eru til skoðunar. Það þarf að lækka aftur skatta sem voru hækkaðir hér á síðustu árum,“ segir Bjarni Benediktsson.



Þá sagði Bjarni það hljóta koma að því á einhverjum tímapunkti að atvinnurekendur taki að sér að greiða mannsæmandi laun.



„Ég tel að atvinnurekendum í landinu hafi tekist um of að velta ábyrgðinni á því að gera betur við þá sem eru í lægstu launaflokkunum í fangið á ríkinu. Það er ekkert eðlilegt við það að að með þau bótakerfi sem við erum með og tekjuskattskerfið eins og það er í dag, þar sem að ríkið sér ekki eina krónu af launum upp í 240 þúsund, að það sé að það sé áfram þannig að það sé vandamál ríkisins að bæta betur hlut þessa fólks. Það hlýtur að koma að því á einhverjum tímapunkti að atvinnurekendur taki að sér að greiða mannsæmandi laun þeim sem eru í lægstu tekjuhópunum. Það getur ekki bara verið vandamál ríkisins,“ segir Bjarni Benediktsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×