Handbolti

Sjáðu Þóreyju Rósu og stöllur hennar fagna sögulegum sigri

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Þórey Rósa færði sig upp á bekk og kallaði yfir sínar stúlkur.
Þórey Rósa færði sig upp á bekk og kallaði yfir sínar stúlkur. vísir
Larvik hefur orðið norskur meistari í handbolta kvenna tíu ár í röð og ekki tapað deildarleik á þeim tíma. Það er eitt allra besta kvennalið Evrópu.

Þóreyju Rósu Stefánsdóttur og stöllum hennar í Vipers Kristiansand var alveg sama um það í gær þegar liðið gerði sér lítið fyrir og vann stórveldið Larvik með sex marka mun, 31-26, í fyrri undanúrslitaleik liðanna í norsku úrvalsdeildini.

Vipers komst með naumindum í undanúrslitin eftir æsispennandi leiki gegn Tertnes í átta liða úrslitunum, en héldu nú flestir að tímabilinu væri lokið hjá Vipers þegar það mætti Larvik.

Þórey Rósa fór á kostum í leiknum og skoraði átta mörk, en hún var markahæst á vellinum. Norska landsliðskonan Nora Mörk skoraði sjö mörk fyrir Larvik, en með liðinu spila nokkrar norskar landsliðskonur.

„Þetta er ótrúlegt. Þetta er ástæðan fyrir því að ég kom hingað. Það er gaman að hafa það á ferilskránni að vera einn fárra þjálfara sem hefur unnið Larvik. Þetta er líklega besta lið heims,“ sagði sigurreifur Gunnar Pettersen, þjálfari Vipers, við NRK eftir leikinn.

Þórey Rósa og félagar eru þó ekki komnar í úrslitin, enda eiga þær eftir útileikinn á einum erfiðasta velli í evrópskum handbolta í dag.

Stelpurnar í Vipers leyfðu sér að fagna vel og innilega inn í klefa eftir leik þar sem stuðpinninn Þórey Rósa var allt í öllu.

Sjá má fögnuð Vipers-kvenna með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×