Golf

Fimm ára bið Furyk á enda

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Furyk í sigurjakkanum eftir mótið í gær.
Furyk í sigurjakkanum eftir mótið í gær. Vísir/Getty
Jim Furyk vann í gær sinn fyrsta sigur á PGA-móti í fimm ár er hann bar sigur úr býtum á RBC Heritage-mótinu.

Furyk hafði betur gegn Kevin Kisner í bráðabana eftir að hafa spilað stórkostlega á lokahringnum. Þá skilaði hann sér í hús á 63 höggum en hann gaf tóninn með því að ná sér í sex fugla á fyrri níu holunum.

Troy Merritt var í forystu fyrir lokahringinn en þriggja högga forysta hans hvarf snemma. Hann spilaði á 69 höggum og endaði í þriðja sæti. Merritt bætti vallarmetið með því að spila fyrsta hringinn á 61 höggi.

Kisner tryggði sér umspil gegn Furyk með því að ná fugli á átjándu holu. Þeir voru jafnir eftir fyrstu holu bráðabanans en Furyk tryggði sér sigur með fugli á næstu holu, þeirri sautjándu sem er par þrjú.

Nýstirnið Jordan Spieth, sem vann nýverið Masters-mótið, endaði í ellefta sæti á tíu höggum undir pari. Hann spilaði á 70 höggum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×