Lyfjafyrirtækið Alvogen hefur ákveðið að halda styrktartónleika í Hörpu þann 6. júní næstkomandi í samstarfi við UNICEF og Rauða krossinn en samtökin standa nú fyrir landssöfnun til styrktar þolendum jarðskjálftans mikla í Nepal. Alvogen mun bera allan kostnað vegna tónleikanna svo að aðgangseyrir renni óskertur til samtakanna. Stefnt er að því að safna 5 milljónum króna vegna tónleikanna sem renna óskertar til UNICEF og Rauða krossins.
Nokkrir af vinsælustu tónlistarmönnum á Íslandi í dag hafa ákveðið að leggja verkefninu lið og munu spila á tónleikunum sem haldnir verða í Silfurbergi í Hörpu þann 6. júní næstkomandi. Retro Stefson, Amabadama og Ylja hafa öll boðað komu sína og búist er við að fleiri bætist við á næstu dögum. Stefnt er að því að selja 1.100 miða á tónleikana og safna þannig 5 milljónum króna. Miðasala hefst á næstu dögum.
Hægt er að leggja fólkinu í Nepal lið með því að hringja í söfnunarsíma Rauða Krossins. Númerin eru 904-1500, 904-2500 og 904-5500 en síðari talan táknar framlagið. Einnig er hægt að senda SMS-ið UNICEF í númerið 1900 og þá renna 1500 krónur til UNICEF.
Tónleikar til styrktar þolenda jarðskálftanna í Nepal

Tengdar fréttir

Hefja neyðarsöfnun vegna skjálftans í Nepal
Rauði krossinn á Íslandi hyggst leggja fimm milljónir króna til hjálparstarfsins í Nepal í kjölfar jarðskjálftans sem varð þar í dag.