Körfubolti

Hrun í seinni hálfleik og tímabilið er búið hjá Drekunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson.
Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson. Vísir/Valli
Sundsvall Dragons er úr leik í úrslitakeppni sænska körfuboltans eftir 19 stiga tap á útivelli á móti deildarmeisturum Södertälje Kings, 104-85.

Södertälje Kings vann undanúrslitaeinvígi liðanna 4-1 og er þar með komið í úrslitaeinvígið um sænska meistaratitilinn.

Sundsvall Dragons var í fínum málum í hálfleik en leikur liðsins hrundi í seinni hálfleiknum sem tapaðist með 27 stiga mun.

Hlynur Bæringsson var með 14 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar, Jakob Örn Sigurðarson skoraði 11 stig og Ægir Þór Steinarsson var með 2 stig og 4 stoðsendingar. Ragnar Nathanaelsson skoraði ekki.

Sundvall var fimm stigum undir eftir fyrsta leikhlutann en átti mjög góðan annan leikhluta sem liðið vann 26-13. Hlynur Bæringsson endaði fyrri hálfleikinn á því að skella niður þrist og Sundsvall-liðið var 59-51 yfir í hálfleik.

Södertälje Kings skoraði 11 af fyrstu 13 stigum seinni hálfleiksins og Sundsvall þurfti að taka leikhlé eftir tæpar fjórar mínútur. Södertälje var komið í 15-2 í þriðja leikhluta þegar Hlynur skoraði körfu og minnkaði muninn í 66-63.

Södertälje Kings liðið var hinsvegar komið í gírinn og var komið sex stigum yfir fyrir lokaleikhlutann eftir að hafa unnið þriðja leikhlutann 26-12.

Lítið breyttist í lokaleikhlutanum og Södertälje vann á endanum mjög öruggan sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×