Körfubolti

Haukur fær vikusamning til að sanna sig hjá sterku liði á Spáni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson.
Haukur Helgi Pálsson. Vísir/Daníel
Íslenski landsliðsmaðurinn Haukur Helgi Pálsson er farinn til Spánar þar sem hann mun reyna að sanna sig hjá spænska úrvalsdeildarliðinu Laboral Kutxa.

Haukur Helgi fær vikusamning til að byrja með og hann mun reyna að sanna sig og vinna sér sæti í liðinu fyrir komandi úrslitakeppni á Spáni.

Laboral Kutxa er mjög sterkt lið og komst í sextán liða úrslitin í Euroleague á þessu tímabili. Liðið er frá Vitoria-Gasteiz í Baskalandi.

Liðið er eins og er í fimmta sæti spænsku deildarinnar sextán stigum á eftir Jóni Arnóri Stefánssyni og félögum í UNicaja sem eru í toppsætinu.

Haukur Helgi Pálsson spilaði með LF Basket í Svíþjóð í vetur en liðið komst ekki upp úr átta liða úrslitum úrslitakeppninnar.

Haukur Helgi stóð sig vel á sínu fyrsta tímabili en hann var með 11,8 stig, 2,3 fráköst og 2,0 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Þetta eru ekki fyrstu kynni hans af spænsku úrvalsdeildinni því hann lék með Manresa-liðinu á sínum tíma.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×