Fótbolti

Karaktersigur hjá Nordsjælland | Guðmundur átti stoðsendingu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur lagði upp fyrra mark Nordsjælland.
Guðmundur lagði upp fyrra mark Nordsjælland. mynd/nordsjælland
Ólafur Kristjánsson og lærisveinar hans í FC Nordsjælland báru 1-2 sigurorð af SönderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Þetta var þriðji sigur Nordsjælland í síðustu fjórum leikjum en liðið er komið upp í 4. sæti deildarinnar með 35 stig, jafnmörg og Randers sem er í því þriðja.

David Moberg Karlsson kom Nordsjælland yfir á 7. mínútu eftir sendingu frá Guðmundi Þórarinssyni og mínútu síðar var staðan orðin 0-2 eftir að leikmaður SönderjyskE setti boltann í vitlaust mark.

Heimamenn fengu vítaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks, auk þess sem Andreas Maxö fékk að líta rauða spjaldið. En David Jensen gerði sér lítið fyrir og varði spyrnu Eriks Marxen, þess hins sama og skoraði sjálfsmarkið í byrjun leiks.

Silas Songani minnkaði muninn í 1-2 á 52. mínútu en einum færri héldu liðsmenn Nordsjælland út og fögnuðu mikilvægum sigri.

Guðmundur spilaði allan leikinn fyrir Nordsjælland sem og Adam Örn Arnarson og þá kom Guðjón Baldvinsson inn á sem varamaður 14 mínútum fyrir leikslok. Rúnar Alex Rúnarsson var ekki í leikmannahópui Nordsjælland.

Baldur Sigurðsson lék ekki með SönderjyskE vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×