Körfubolti

Geno Auriemma jafnaði afrek John Wooden

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Geno Auriemma.
Geno Auriemma. Vísir/AP
Geno Auriemma komst í hóp með hinum goðsagnakennda þjálfara John Wooden í nótt þegar hann gerði kvennalið Connecticut-háskólans að háskólameisturum í körfubolta í tíunda sinn.

UConn-liðið vann þá 63-53 sigur á Notre Dame háskólaliðinu í úrslitaleiknum en þetta er þriðja árið í röð sem Connecticut-skólinn verður meistari.

Breanna Stewart hefur verið valin besti leikmaðurinn öll þrjú árin en hún var með 15 fráköst, 8 stig og 4 varin skot í úrslitaleiknum.

UConn hefur unnið alla tíu úrslitaleiki sína undir stjórn Geno Auriemma sem tók við þjálfun liðsins árið 1985. Fyrsti titillinn kom í hús árið 1995 og frá og með árinu 2009 hefur skólinn orðið fimm sinnum NCAA-meistari.

John Wooden gerði UCLA-háskólaliðið tíu sinnum að meisturum frá 1964 til 1975 en hann þjálfaði leikmenn eins og þá Kareem Abdul-Jabbar og Bill Walton.

Auriemma er líklegur til að bæta við titlum en stærsti hluti UConn-liðsins kemur aftur næsta vetur þar á meðal hin öfluga Breanna Stewart og bakvörðurinn Moriah Jefferson sem átti stórleik í úrslitaleiknum í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×