Handbolti

Alexander og félagar í vondum málum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Petersson.
Alexander Petersson. Vísir/Getty
Alexander Petersson og félagar í þýska liðinu Rhein-Neckar Löwen eru ekki í alltof góðum málum eftir fyrri leik liðsins í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar i handbolta.

Rhein-Neckar Löwen tapaði með fjögurra marka mun á heimavelli í kvöld á móti ungverska liðinu Pick Szeged, 34-30. Liðið þarf því að vinna upp þennan mun í seinni leiknum eftir níu daga ætli Ljónin að komast í átta liða úrslitin en þá verða þeir hinsvegar á útivelli.

Alexander Petersson skoraði fjögur mörk úr sex skotum en var settur á bekkinn þegar ekkert gekk í sókninni um miðjan seinni hálfleikinn og hann var búinn að tapa tveimur boltum í röð. Stefán Rafn Sigurmannsson spilaði ekki.

Uwe Gensheimer var markahæstur hjá Rhein-Neckar Löwen með átta mörk, Andy Schmid skoraði fimm mörk og þeir Alexander og Bjarte Myrhol voru með fjögur mörk hvor.

Löwen-liði var einu marki yfir í hálfleik, 17-16, eftir að hafa skorað fjögur síðustu mörk hálfleiksins en Pick Szeged komst í 8-4 í upphafi leiks.

Rhein-Neckar Löwen tók leikhlé þegar ein og hálf mínúta var eftir og staðan var 33-30. Löwen náði hinsvegar ekki að skora og Pick Szeged fór upp og jók muninn í fjögur mörk. Þessi tveggja marka sveifla gæti verið dýrkeypt fyrir Ljónin í seinni leiknum í Ungverjalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×