Handbolti

Birna Berg og Einar tryggðu Molde sæti í úrvalsdeild í fyrsta skipti

Anton Ingi Leifsson skrifar
Birna og Einar fagna sigrinum.
Birna og Einar fagna sigrinum. vísir/anton
Molde tryggði sér sæti í norsku úrvalsdeild kvenna í handbolta með sigri á botnliði Randesund, 33-21, í kvöld. Birna Berg Haraldsdóttir leikur með Molde, en Einar Jónsson þjálfar liðið.

Fyrir leik var ljóst að Molde þyrfti að ná í eitt stig til að tryggja sér sæti í efstu deild. Liðið var að mæta versta liði deildarinnar og því líklegt að um formsatriði yrði að ræða.

Leikurinn tafðist um tvo tíma vegna þess að flugvél sem átti að ferja Molde til Randesund bilaði og því þurfti að seinka leiknum. Það virtist ekki hafa áhrif á Birnu því hún skoraði þrjú fyrstu mörk Molde í leiknum og fjögur af fyrstu fimm.

Molde var með öll tök á vellinum og leiddi nánast mest allan fyrri hálfleikinn. Eftir að Birna skoraði fjögur af fyrstu fimm mörkunum var hún tekin úr umferð allan leikinn. Staðan í hálfleik var svo 15-12, Molde í vil.

Síðari hálfleikurinn var svo ekkert spennandi. Þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum leiddu Molde með átta mörkum, 24-16, og einungis spurning hversu stór sigurinn yrði - ekki hvoru megin hann myndi enda.

Lokatölur urðu svo tólf marka sigur Molde, 33-21. Birna Berg skoraði fjögur mörk fyrir Molde, en öll mörk Hafnfirðingsins komu á fyrsta stundarfjórðungnum.

Ljóst er að um magnaðan árangur er að ræða. Molde kom upp úr annari deildinni í fyrra og er nú komið í deild þeirra bestu. Einar Jónsson að gera magnaða hluti og stýrð liðinu upp um tvær deildir á tveimur árum. Næsta ár verður fyrsta árið sem Molde á lið í úrvalsdeild kvenna í handbolta.

Ekki er ljóst hvar Birna spilar á næsta tímabili, en hún er á láni hjá Molde. Hún er á mála hjá Savehöf fra Svíþjóð, en líklegt er að hún fari frá sænsku meisturunum í sumar. Óvíst er hvert hún sé að fara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×