Fótbolti

Real Madrid í bann eins og Barcelona? | FIFA-rannsókn farin í gang

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Odegaard og Emilio Butragueno.
Martin Odegaard og Emilio Butragueno. Vísir/Getty
Alþjóðaknattspyrnusambandið hefur hafið rannsókn á félagskiptum ungra leikmanna til spænska stórliðsins Real Madrid og hefur óskað eftir upplýsingum um 51 skipti þar sem Real Madrid hefur náð sér í leikmann undir átján ára aldri.

Emilio Butragueno, yfirmaður hjá Real Madrid, hefur staðfest það að FIFA hafi sóst eftir þessum upplýsingum hjá spænska knattspyrnusambandinu. Butragueno talaði jafnframt um það að þrátt fyrir þetta væru menn hjá félaginu alveg rólegir.

FIFA dæmdi Barcelona í félagskiptabann til ársins 2016 fyrir brot á reglum FIFA í tilfellum tíu leikmanna undir átján ára sem komu í fótboltaakademíu félagsins árið 2013. Barcelona má ekki fá til sín nýjan leikmann fyrr en í janúar 2016.

Meðal þeirra félagsskipta leikmanna sem FIFA vill skoða betur eru komur tíu spænskra landsliðsmanna og 23 erlendra leikmanna sem höfðu þegar verið skráðir hjá öðru spænsku félagi.

Leikmenn undir átján ára hafa bara þrjár löglegar leiðir til að þess að komast að hjá erlendi félagi. Í fyrsta lagi ef foreldrar þeirra flytja til landsins án þess að það tengist fótboltanum, í öðru lagi ef þeir eru frá þjóð innan evrópska efnahagssvæðisins og á aldrinum 16 til 18 ára og í þriðja lagi ef að þeir búa á innan við hundrað kílómetra radíus frá félaginu.

Real Madrid samdi á fimmtudaginn var við hinn sextán ára gamla Norðmann Martin Odegaard sem kemur frá Stromgodset.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×