Fótbolti

Vondi-Messi lét sjá sig á Nývangi í gær | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lionel Messi var einu sinni sem oftar á skotskónum fyrir Barcelona í gærkvöldi þegar liðið vann Spánarmeistara Atlético Madrid, 3-1, í stórleik helgarinnar í spænsku 1. deildinni.

Með sigrinum hélt Barcelona pressunni á topplið Real Madrid, sem átti í engum vandræðum með að leggja Espanyol að velli um helgina, en Real á einnig leik til góða.

Messi skoraði markið í uppbótartíma, en hann hefði líklega átt að fara út af með rautt spjald tíu mínútum fyrr.

Sjá einnig:Barcelona í annað sætið eftir sigur á meisturunum - sjáðu mörkin

Argentínumaðurinn var nokkuð pirraður í leiknum - og reyndar eftir hann - eins og kom fram í viðtali þar sem hann sagði orðróma um brottför hans og fleira hjá Börsugum vera tóman þvætting.

Meistarar Atlético voru mjög grófir framan af í leiknum og blóðguðu t.a.m. Neymar sem þurfti að fara af velli í nokkrar mínútur á meðan hann fékk aðhlynningu lækna.

Messi svaraði fyrir sína menn með olnbogaskoti í hnakkann á Jesús Gámez, leikmanni Atlético. Af einhverjum ástæðum slapp Messi án þess að fá svo mikið sem gult spjald sem var heppilegt vegna þess sem átti eftir að gerast.

Þegar tíu mínútur voru eftir fór Messi nefnilega ansi harkalega í Miguel Moya, markvörð Atlétco, með hálfgerðu karatesparki, eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan. Messi fékk gult spjald en átti sem fyrr segir eftir að skora mark í uppbótartíma.

Þessa hina hlið á Lionel Messi má sjá í spilaranum efst í fréttinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×