Handbolti

Bjarki Már samdi við Berlínarrefina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bjarki Már Elísson.
Bjarki Már Elísson. vísir/stefán
Bjarki Már Elísson, leikmaður þýska 2. deildar liðsins Eisenach, er búinn að semja við bikarmeistara Füchse Berlín, en þetta kemur fram á vef félagsins.

Hornamaðurinn öflugi gerði tveggja ára samning við Berlínarliðið og gengur í raðir þess eftir tímabilið, en þar verður hann undir stjórn Erlings Richardssonar, sem tekur við Refunum í sumar af Degi Sigurðssyni.

Bjarki Már lék síðast undir stjórn Erlings árið 2012 þegar þeir urðu saman meistarar með HK hér heima.

„Þetta er mjög stórt tækifæri fyrir mig. Ég vil spila í efstu deild og fyrsta skrefið var að skrifa undir,“ segir Bjarki á heimasíðu Füchse.

Hann hefur farið á kostum með Eisenach í vetur og raðað inn mörkum. Bjarki hefur verið viðloðinn íslenska landsliðið undanfarin misseri, en er ekki í leikmannahópi Íslands sem fer á HM í Katar.

Füchse Berlín er í 10. sæti þýsku 1. deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×