Körfubolti

Jón Arnór tók þátt í að setja nýtt met í spænsku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Vísir/Getty
Jón Arnór Stefánsson, Íþróttamaður ársins 2014, skoraði tíu stig á ellefu mínútum í gær þegar lið hans Unicaja Malaga vann góðan heimasigur á Bilbao Basket en það var út af öðru sem þessi leikur var sögulegur.

Bæði liðin nýttu öll vítin sín í leiknum og þetta er í fyrsta sinn sem lið eru með hundrað prósent vítanýtingu úr svona mörgum skotum.

Jón Arnór nýtti eina vítið sitt en alls hittu leikmenn Unicaja Malaga úr sextán af sextán vítum sínum. Leikmenn Bilbao Basket hittu úr öllum tólf vítum sínum og því fóru öll 28 víti leiksins rétta leið.

Gamla metið var frá 2007-2008 tímabilinu þegar leikmenn Akasvayu Girona og Polaris World Murcia hittu úr öllum 24 vítum sínum.

Jón Arnór var einn af átta leikmönnum Unicaja Malaga sem hitti úr öllum vítum sínum í leiknum en enginn þeirra fékk fleiri fjögur víti.

Jón Arnór er með frábæra vítanýtingu á tímabilinu en hann hefur hitt úr 18 af 20 vítum sínum sem gerir 90 prósent vítanýtingu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×