Sport

Norma Dögg og Birgir Leifur íþróttafólk ársins í Kópavogi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Norma Dögg Róbertsdóttir og Birgir Leifur Hafþórsson með bikarana í dag.
Norma Dögg Róbertsdóttir og Birgir Leifur Hafþórsson með bikarana í dag. mynd/kópavogur
Birgir Leifur Hafþórsson, kylfingur úr GKG, og Norma Dögg Róbertsdóttir, fimleikakona úr Gerplu voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2014.

Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Reiðhöll Spretts í dag, en þau fengu að launum farandbikar og eignarbikar jafnframt því sem Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs afhenti þeim hvoru um sig 150 þúsund króna ávísun í viðurkenningarskyni frá Kópavogsbæ.

Birgir Leifur og Norma Dögg voru valin úr hópi 39 íþróttamanna sem fengu viðurkenningu íþróttaráðs eftir tilnefningar frá íþróttafélögunum í bænum.

Meistaraflokkur HK í blaki var kjörinn flokkur ársins 2014 karla en liðið varð Íslands-,  bikar- og deildarmeistari í blaki á árinu.

Birgir Leifur varð Íslandsmeistari í höggleik á árinu 2014 og það í sjötta sinn á ferlinum og komst á lokastig úrtökumóts Evrópumótaraðarinnar á síðasta ári.

Norma Dögg varð Íslandsmeistari í fjölþraut í áhaldafimleikum kvenna árið 2014. Hún vann einnig til  tvennra verðlauna á Norðurlandamótinu á árinu, silfur í stökki og bronsverðlaun í liðakeppni.

Hún varð í 11. sæti í stökki á EM og í 18. sæti í stökki á Heimsmeistaramótinu nú í október. Þetta er besti árangur íslenskrar fimleikastúlku í áhaldafimleikum hingað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×