Körfubolti

Elvar Már stigahæstur í æsispennandi sigurleik | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Elvar Már Friðriksson var hetjan undir lokin.
Elvar Már Friðriksson var hetjan undir lokin. vísir/getty
Elvar Már Friðriksson og Martin Hermannson áttu báðir flottan leik fyrir LIU Blackbirds í efstu deild bandaríska háskólaboltans í nótt.

Svartþrestirnir báru sigurorð af Sacred Heart Pioneers, 82-81, á heimavelli, en tvöfalda framlengingu þurfti til að knýja fram sigurvegara í þessum háspennuleik.

Þegar 22 sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma fengu gestirnir úr Sacred Heart-skólanum tvö vítaskot en hvorugt fór niður. Hinum megin Martin Hermannsson reyndi skot fyrir sigrinum um leið og leiktíminn rann út en boltinn skoppaði af hringnum.

Lokatölur eftir venjulegan leiktíma voru 70-70. LIU fékk aftur tækifæri til að skora sigurkörfuna í fyrri framlengingunni en mistókst það og staðan áfram jöfn, 75-75.

Martin var líka flottur í nótt.vísir/getty
Þegar 2,6 sekúndur voru eftir af seinni framlengingunni og LIU einu stigi yfir, 82-81, voru gestirnir í sókn, en Elvar Már Friðriksson fiskaði ruðning á leikmann Sacret Heart og kláraði þannig leikinn.

Gestirnir brutu á Gerrell Martin sem fór á vítalínuna þegar 1,9 sekúndur voru eftir. Hann brenndi af báðum skotunum en það kom ekki að sök því LIU vann eins stigs sigur, 82-81.

Elvar Már var stigahæstur á vellinum með 18 stig auk þess sem hann tók tvö fráköst, gaf sjö stoðsendingar og stal tveimur boltum. Martin Hermannsson skoraði tólf stig, tók þrjú fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.

LIU er nú búið að vinna fimm leiki og tapa níu, en það er búið að vinna einn og tapa tveimur innan NEC-deildarinnar.

Í New Jersey voru svo Gunnar Ólafsson og félagar hans í St. Francis í heimsókn hjá Fairleigh Dickenson-skólanum og unnu níu stiga sigur, 78-69.

Gunnar byrjaði á bekknum hjá St. Francis en skoraði eina þriggja stiga körfu auk þess sem hann tók tvö fráköst. Gunnar og félagar eru í fínum málum með níu sigra og sjö töp, en þeir eru búnir að vinna alla þrjá leiki sína innan NEC-deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×