Fundurinn hófst á stuttri þögn til að minnast þeirra tæplega sjö hundruð sem látist hafa í árásum á Gasasvæðið síðustu tvær vikur. Ræðumaður dagsins var Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sem sparaði ekki stóru orðin í gagnrýni sinni á loftárásir Ísraelsmanna.
„Við eigum að taka afdráttarlausa afstöðu gegn ofbeldi gegn saklausu fólki, alltaf og alls staðar,“ sagði Dagur við mikið lófatak viðstaddra.
Stuttu áður en fundurinn hófst var greint frá því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefði sent starfsbróður sínum í Ísrael, Benjamín Netanjahú, bréf þar sem hann fordæmir árásir og ofbeldi á báða bóga og kallar eftir tafarlausu vopnahléi. Sveinn Rúnar Hauksson, formaður Íslands-Palestínu og fundarstjóri, flutti fréttir af þessu á Ingólfstorgi og sagði að fundurinn hefði þannig haft áhrif áður en hann hófst.
Sjá mátti söfnunarbauka víða á torginu en Ísland-Palestína stendur um þessar mundir fyrir neyðarsöfnun fyrir íbúa Gasasvæðisins. Þess má geta að félagið tekur við frjálsum framlögum á reikning sinn, 542-26-6990 kt. 520188-1349.

Leikkonan Þóra Karítas Árnadóttir flutti ljóðið Slysaskot í Palestínu eftir Kristján frá Djúpalæk og nýstofnaði kórinn Vox Palestína söng lagið Þú veist í hjarta þér eftir Þorstein Valdimarsson. Fundi lauk svo á því að viðstaddir, sem skiptu þúsundum, hrópuðu slagorð á borð við „Frjáls Palestína“ og „Stöðvum blóðbaðið“.
Að fundi loknum gengu fundargestir saman að Stjórnarráðinu. Þar var Jóhannesi Þór Skúlasyni, aðstoðarmanni forsætisráðherra, afhent ályktun fundarins. Þá lögðust sjö hundruð manns niður á Arnarhóli til að setja í samhengi fjölda þeirra sem fallið hafa í árásunum.


