Handbolti

Þjálfar Fram eða tekur sér frí

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Valur náði mögnuðum árangri undir stjórn Stefáns.
Valur náði mögnuðum árangri undir stjórn Stefáns. fréttablaðið/stefán
Stefán Arnarsson er hættur sem þjálfari Vals í Olís-deild kvenna eftir sex ára starf hjá félaginu. Á þeim tíma vann liðið sautján titla, þar af fjórum sinnum Íslandsmeistaratitilinn.

„Stundum er gott að hætta leik þegar hæst stendur,“ sagði Stefán sem sagði viðskilnaðinn við Val góðan. „Ég er gríðarlega ánægður með minn tíma hjá Val.“

Hann staðfesti að hann hefði átt í viðræðum við nokkur lið en að Fram kæmi helst til greina hjá sér. „Ef ég þjálfa áfram verður það hjá Fram. Að öðrum kosti tek ég mér frí frá þjálfun,“ sagði Stefán í samtali við Fréttablaðið í gær.

Það er því von á talsverðum breytingum hjá Val fyrir næsta tímabil en fyrirliðinn Hrafnhildur Ósk Skúladóttir lagði skóna á hilluna eftir sigur liðsins á Stjörnunni í úrslitarimmunni. Staða margra annarra leikmanna liðsins er í óvissu.

Halldór Jóhann Sigfússon var áður þjálfari kvennaliðs Fram en hætti á vormánuðum til að taka við karlaliði FH. Óskar Bjarni Óskarsson hefur verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá Val en hann var aðstoðarmaður Stefáns í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×