Erlenda síðan er svokallaður „korkur“, spjallsíða þar sem notandi getur sett inn efni að vild undir umræðu. Fimm mismunandi spjallþræðir hafa verið teknir í gagnið á síðustu sex mánuðum í þeim tilgangi að skiptast á myndum af íslenskum stúlkum.
Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir erlendu síðuna til rannsóknar hjá lögreglu. „Lögreglunni barst tilkynning um síðuna í síðustu viku. Þetta mál er nú til rannsóknar. Reynt verður að fá síðunni lokað á sama hátt og öðrum viðlíka síðum sem hafa skotið upp kollinum á síðustu árum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem spjallsíða af þessu tagi er til rannsóknar hjá lögreglu.“

„Samkvæmt íslenskum lögum er öll skoðun, varsla og dreifing á efni sem sýnir börn yngri en 18 ára á kynferðislegan hátt ólögleg og er brot á réttindum barnsins. Mikilvægt er að uppræta slíkt efni og koma þolandanum til hjálpar. Það að myndefnið sé skoðað aftur og aftur og sé í dreifingu er í raun síendurtekið ofbeldi gegn þolandanum,“ segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.