Körfubolti

Kristinn og félagar spila til úrslita í Euroleague framtíðarleikmanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Pálsson.
Kristinn Pálsson. Mynd/Youtube
Njarðvíkingurinn Kristinn Pálsson er að standa sig vel í leiðtogahlutverkinu hjá ítalska unglingaliðinu Stella Azzura en lið hans er komið alla leið í úrslitaleikinn um sæti meðal hinna fjögurra fræknu í Euroleague Next Generation Tournament eða Euroleague framtíðarleikmanna.

Karfan.is sagði fyrst frá frábæru gengi unglingaliðs Stella Azzura en liðið hefur unnið alla þrjá leiki sína á mótinu til þessa. Átta liðum var skipt niður í tvo riðla þar sem aðeins eitt lið kemst áfram í úrslitahelgina.  

Kristinn er búinn að skora 8,0 stig að meðaltali á 28,4 mínútum í þessum þremur leikjum auk þess að stela 3,3 boltum í leik, taka 2,7 fráköst að meðaltali og gefa 1,7 stoðsendingar í leik.

Kristinn fær sérstakt hrós fyrir varnarleikinn sinn en samkvæmt fyrrnefndri frétt á karfan.is stóð hann sig mjög vel á móti Króatanum Dragan Bender sem spilar með Tel Aviv.

Bender þessi er talinn besti leikmaður 1997 árgangsins þetta árið og var með áberandi lökustu tölfræðina á móti Kristni og félögum (fæst stig, lélegustu skotnýtinguna og flesta tapaða bolta).

Kristinn er nýorðinn 17 ára gamall en hann er sonur fyrrverandi landsliðsmannsins Páls Kristinssonar og þá spilaði móðir hans, Pálína Gunnarsdóttir, einnig mörg tímabil með Njarðvík í úrvalsdeild kvenna.

Stella Azzura mætir spænska liðinu Unicaja Malaga í úrslitaleiknum klukkan 18.30 í kvöld en þar á ferðinni félagið sem Jón Arnór Stefánsson spilar með,  Sigurvegarinn úr leiknum tryggir sér farseðil á fjögurra liða úrslitahelgi í keppninni sem fer fram í Madrid í maí.

Þetta er fyrsti hlutinn af fjórum en hinir fara fram á nýju ári í L'Hospitalet á Spáni, í Kaunas í Litháen og í Belgrad í Serbíu.

Hér fyrir neðan má sjá tilþrif úr leiknum sem og viðtal við Kristinn sem er tekið á ensku. Kristinn stýrir einnig fagnaðarhring liðsins eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×