Körfubolti

Axel með mjög flotta tvennu í sigri á SISU

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Axel Kárason.
Axel Kárason. Vísir/Daníel
Landsliðsmaðurinn Axel Kárason átti mjög flottan leik í gær þegar Værlöse vann þriggja stiga útisigur á SISU, 82-79, í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta.

Axel náði þarna sinni fyrstu tvennu á tímabilinu en hann var með 20 stig og 14 fráköst. Íslenski framherjinn setti meðal annars niður fimm þrista í leiknum.

Þetta var næstbesti leikur Axel í vetur hvað varðar stigaskor en sá besti í framlagi, fráköstum og þriggja stiga körfum.

Axel setti fjóra af fimm þristum sínum úr hægra horninu en hann fór hamförum í öðrum leikhlutanum þar sem hann skoraði 12 af 20 stigum sínum en Værlöse vann leikhlutann 27-22.

SISU vann með sjö stigum þegar liðin mættust fyrr í vetur en SISU var með meira en tvöfalt fleiri stig en Værlöse fyrir leikinn.  

Axel er með 10,7 stig og 6,6 fráköst að meðaltali í leik á leiktíðinni en Værlöse situr nú í þriðja neðsta sætinu sem er jafnframt síðasta örugga sætið í töflunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×