Fótbolti

Pepe gaf nágrönnum sínum níu tonn af mat

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pepe fagnar marki með Real Madrid.
Pepe fagnar marki með Real Madrid. Vísir/Getty
Pepe, varnarmaður Real Madrid og portúgalska landsliðsins, sýndi það og sannaði að hann er mikill mannvinur þegar hann kom færandi hendi til fátækra íbúa Las Rozas hverfisins í Madrid á Spáni.

Pepe, sem hefur fengið tólf rauð spjöld á ferlinum, er miklu þekktari fyrir tuddaaskap og æðisköst inn á vellinum en að taka að sér hlutverk miskunnsama Samverjans.

Pepe er 31 árs gamall og kemur sjálfur úr verkmannafjölskyldu í Brasilíu. Hann greiddi fyrir níu tonn af mat sem verður dreift til íbúa Las Rozas hverfisins svo þeir geti notið jólahátíðarinnar.  Pepe býr einmitt í hverfinu og vildi passa upp á það að nágrannar sínir gætu notið jólanna.

Þetta er heldur ekki í fyrsta sinn sem Pepe bregður sér í hlutverk jólasveinsins því í fyrra gaf hann fimm tonn af mat til íbúa Las Rozas hverfisins. Pepe mætti þá sjálfur til að láta fólkið í hverfinu fá sína matarpakka.

Pepe hefur spilað með Real Madrid frá árinu 2007 en hann hefur unnið átta titla með félaginu þar af Meistaradeildina í vor og spænsku deildina bæði 2008 og 2012.

Pepe verður í sviðsljósinu í kvöld þegar Real Madrid mætir Almeria í spænsku úrvalsdeildinni en leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Leikurinn hefst klukkan 19.45. Þetta er síðasti leikur Real Madrid liðsins fyrir Heimsmeistarakeppni félagsliða í Marokkó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×