Samkvæmt heimildum Vísis mætti stjörnuparið í Bláa lónið rétt upp úr klukkan fjögur í dag.
Þar láta þau stjana við sig í lúxusmeðferð og baða sig í bláleitu vatninu.
Starfsmenn lónsins vildu ekkert gefa uppi þegar haft var samband og spurst fyrir um gestina frægu.

„Ég er hérna í Bláa lóninu og ég synti rétt í þessu við hliðina á BEYONCÉ OG JAYZ. Ég er alls konar hamingjusöm núna,“ skrifaði Instagram-notandinn beccs_d á síðu sína nú í eftirmiðdaginn.
Fyrr í dag var ljósmyndara Vísis vísað frá jörð í Úthlíð þar sem talið er að parið dvelji í lúxussumarhúsi í eigu Jóhannesar Stefánssonar í Múlakaffi. Við húsið glæsilega var stödd þyrla sem talið er að sé í þjónustu söngvaranna.
Sumarhúsið sem um ræðir gengur undir nafninu The Trophy Lodge en það er í útjaðri sumarbústaðahverfisins. Ekki er hægt að keyra upp að því vegna öryggisgæslu. Í gegnum árin hafa mörg fyrirmenni og stórstjörnur gist í húsinu.
