Körfubolti

Helena hitti úr öllum sex þriggja stiga skotunum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Mynd/Heimasíða CCC Polkowice
Frábær leikur Helenu Sverrisdóttur dugði ekki í kvöld þegar lið hennar CCC Polkowice tapaði með einu stigi í framlengdum leik á móti Widzew Lódz, 99-98, í pólsku úrvalsdeildinni í körfubolta.

Helena skoraði 23 stig í leiknum en hún hitti úr öllum sex þriggja stiga skotum sínum í leik. Hinir leikmenn Polkowice hittu hinsvegar aðeins úr 1 af 13 þriggja stiga skotum sínum og það vóg þungt.

Helena spilaði alls í 35 mínútur og 24 sekúndur í leiknum og liðið hennar vann þær mínútur með fjórum stigum. Helena var með 4 fráköst, 1 stoðsendingu og 1 stolinn bolta auk stiganna sinna.

Helena átti möguleika á því að koma Polkowice tveimur stigum yfir í lokin en hitti þá aðeins úr öðru af tveimur vítaskotum sínum. Leikmaður Lódz fékk tvö víti hinum megin, nýtti þau bæði og tryggði Lódz-liðinu eins stigs sigur.

Tapið er áfall fyrir lið Polkowice enda var Lódz-liðið í þriðja neðsta sæti deildarinnar fyrir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×