Ágúst Csillag, 23ja ára fangi sem heimildaþátturinn Brestir hefur fylgt eftir í 3 mánuði, er afar ósáttur við framkomu fangavarða við móður hans í heimsóknum hennar á Litla-Hraun. Móðir hans á erfitt með gang vegna fæðingargalla í mjöðmum og hann er m.a. ósáttur við að hún hafi verið látin fara úr skóm við líkamsleit, þar sem hún sé ekki fær um það hjálparlaust.
Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður Litla-Hrauns, segir reynt að hafa heimsóknartíma hlýlega, en líkamsleit geti verið nauðsynlegt til að tryggja öryggi í fangelsinu.
Samkvæmt upplýsingum sem Brestir öfluðu hjá Lögreglunni á Selfossi, hafa heimsóknargestir á Litla-Hrauni orðið uppvísir að smygli inn í fangelsið í 37 tilvikum síðan 2010. Langoftast reyna heimsóknargestir að smygla þangað lyfjum eða sterum, tíu sinnum reyndu gestir að smygla fíkniefnum inn í fangelsið en aðeins einn hefur verið gómaður með áfengi á síðustu fimm árum. Þá var 7 sinnum reynt að smygla hlutum á borð við símakortum, netpungum og einni leikjatölvu. Flestar tilraunir til smygls sem náðist að stöðva voru með heimsóknargestum en í tveimur tilvikum hafði pakka verið kastað yfir girðinguna í kringum fangelsið.
Afraksturinn af heimildaefni Bresta á Litla-Hrauni birtist í lokaþætti seríunnar í kvöld. Ágúst fékk í fyrra 10 ára dóm í Kaupmannahöfn fyrir smygl á amfetamíni frá Hollandi til Danmerkur. Í þættinum verður rætt við móður Ágústar, systur hans, fangaverði, afbrotafræðing, meðferðarfulltrúa og forstöðumann Litla-Hrauns til að leita svara við þeirri spurningu hvort fangelsisvist sé betrun eða refsing.
Áttundi og síðasti þáttur Bresta að sinni, verður á Stöð 2 kl. 20:35 í kvöld. Umsjónarmenn Bresta eru Lóa Pind Aldísardóttir, Kjartan Hreinn Njálsson og Þórhildur Þorkelsdóttir. Myndatökumaður er Björn Ófeigsson og Gaukur Úlfarsson leikstjóri.
