Erlent

Bjargaði dóttur sinni úr röðum ISIS

Atli Ísleifsson skrifar
Monique lýsti því hvernig dóttir hennar breyttist úr því að vera venjuleg, hollensk táningsstúlka í róttækan múslíma á skömmum tíma.
Monique lýsti því hvernig dóttir hennar breyttist úr því að vera venjuleg, hollensk táningsstúlka í róttækan múslíma á skömmum tíma.
Hollensk móðir hefur bjargað dóttur sinni úr röðum ISIS eftir að hún hélt til sýrlensku borgarinnar Raqqa og fór með hana aftur til Hollands. Stúlkan yfirgaf fjölskyldu sína fyrr á árinu til að ganga til liðs við sveitir ISIS og giftast einum af vígamönnum samtakanna.

Í frétt BBC segir að dóttir konunnar, Aicha, sé á táningsaldri og að hún hafi komist í samband við liðsmenn ISIS í gegnum samfélagsmiðla. Í viðtali við hollenska sjónvarpsstöð lýsti móðirin, Monique, því hvernig dóttir hennar hafi breyst úr því að vera venjuleg, hollensk táningsstúlka í róttækan múslíma á skömmum tíma.

Lögmaður Aichu segir í samtali við BBC að skjólstæðingur sinn hafi verið handtekinn við komuna til heimaborgarinnar Maastricht í síðustu viku.

Aicha yfirgaf Holland í febrúarmánuði til að giftast Omar Yilmaz, hollensk-tyrkneskum íslamista, sem hafði áður verið í hollenska hernum en síðar gengið til liðs við ISIS. „Hún leit á hann sem einhvers konar Hróa hött,“ útskýrir móðir Aichu, Monique.

Ekki er greint nákvæmlega frá því hvernig Monique tókst að fá dóttur sína frá Raqqa, en ljóst er að það tókst ekki í fyrstu tilraun. Upphaflega hélt hún til Tyrklands í október en tókst þá ekki að halda yfir landamærin til Sýrlands.

Aicha er ein af fjölmörgum evrópskum stúlkum og konum sem hafa farið til Sýrlands og Íraks til að ganga til liðs við sveitir ISIS. Talið er að þær skipti fleiri hundruðum, ef ekki þúsundum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×