Körfubolti

Dramatískasta stundin í bandarískum íþróttum á árinu | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lauren Hill.
Lauren Hill. Vísir/AP
Lauren Hill, 19 ára körfuboltastelpa í Mount St. Joseph háskólanum, spilaði aðeins 47 sekúndur í fyrsta leik tímabilsins en þessar sekúndur voru kannski þær allra dramatískustu á þessu ári í bandarísku íþróttalífi.

Lauren Hill er dauðvona því hún greindist með ólæknandi krabbamein í höfði aðeins 48 dögum eftir að hún ákvað að spila fyrir Mount St. Joseph háskólaliðið. Hún fékk þær fréttir í september að hún ætti aðeins nokkrar vikur eftir.

„Ég hélt að ég myndi aldrei fá að spila háskólakörfubolta en um leið og ég steig inn á gólfið þá fann ég titringinn frá öll fólkinu. Mér hefur aldrei liðið svona vel á allri ævinni," sagði Lauren Hill en hún skoraði fyrstu körfu leiksins eftir 17 sekúndur.

„Ég bjóst bara við lítilli umgjörð og að þetta yrði bara fyrir okkar samfélag hérna. Þetta  samfélag er bara svo stórt og við erum öll í þessu saman. Allir sameinuðust í dag og þetta var stórkostlegt," sagði Lauren sem var ekki viss um að geta spilað næsta leik liðsins.

Mount St. Joseph háskólinn fékk að færa fyrsta leik tímabilsins fram svo að Lauren Hill, fengi að upplifa drauminn sinn um að spila körfubolta í háskóla. Um 100 manns koma venjulega á leiki liðsins en nú var allt annað upp á teningnum.

Tíu þúsund manns fylltu höllina á leiknum og í áhorfendaskaranum mátti finna leikmenn úr bæði WNBA og NFL.

„Draumur Laurenar um að spila körfubolta í Mount-búningi rætist í dag. Tíu þúsund manns eru samankomin til að upplifa þetta með henni og í dag spilum við fyrir 22," sagði Dr. Tony Aretz, forseti Mount St. Joseph háskólans fyrir leikinn en Lauren spilaði í treyju númer 22.

Hér fyrir neðan má sjá frétt CBS um Lauren Hill og leikinn.



Lauren Hill með Pat Summitt, eins virtasta köfuboltaþjálfara allra tíma.Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×