Stephen Hart, þjálfari landsliðs Trínidad og Tóbagó, valdi næstmarkahæsta leikmann Pepsi-deildar karla 2014, í 23 manna landsliðshóp sinn fyrir karabíska bikarinn sem fer fram á Jamaíka seinna í þessum mánuði.
Í frétt wired868.com um valið kemur fram að Stephen Hart hafi ekki séð Jonathan Glenn spila á Íslandi síðasta sumar heldur voru það myndbönd með Glenn sem sannfærðu hann um að velja hann í liðið.
Pepsi-mörkin fjölluðu ítarlega um Jonathan Glenn í sumar eins og aðra bestu leikmenn deildarinnar og sýndu að sjálfsögðu öll mörkin hans.
Það er því líklegt að Stephen Hart hafi nýtt sér upptökur úr Pepsi-mörkunum til að sannfærast um að Jonathan Glenn væri einn af þremur bestu framherjum þjóðarinnar.
Hér fyrir neðan má sjá myndband með mörkum Jonathan Glenn í Pepsi-deildinni í sumar.