Fótbolti

Neymar valdi Barcelona fram yfir Real Madrid

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Neymar vildi spila á Nývangi.
Neymar vildi spila á Nývangi. vísir/getty
Spænsku stórliðin og erkifjendurnir Real Madrid og Barcelona mætast á Santiago Bernabéu í Madríd á laugardaginn og er sálfræðistríðið í fullum gangi fyrir þennan fyrsta El Clásico-leik vetrarins.

Börsungar hafa fengið hjálp úr óvæntri átt í sálfræðihernaðinum, en fyrrverandi forseti brasilíska félagsins Santos segir að stórstjarnan Neymar hafi sjálfur valið að fara til Barcelona frekar en Real Madrid.

Neymar batt enda á langa félagaskiptasögu síðasta sumar þegar Börsungar keyptu hann frá Santos fyrir 68,4 milljónir punda, en spænsku risarnir voru búnir að berjast um hann lengi.

Luis Alvaro de Oliveira Ribeiro, fyrrverandi forseti Santos, segir þó að tilboð Real Madrid hafi engu máli skipt því Brassinn vildi alltaf fara til Barcelona.

„Ég var á sjúkrahúsi á þessum tíma og varaforsetinn, sem síðar varð forseti, OdilioRodrigues, hélt sambandi við Barcelona og Real Madrid,“ segir Ribeiro við Cope.

„Hann sagði mér að tilboð Real Madrid væri hærra, en leikmaðurinn vildi ekki fara þangað. Örlög hans voru ráðin; Neymar vildi fara til Barcelona og þannig var það.“

Ribero komst í fréttirnar fyrr á árinu þegar hann sagðist vilja keyra yfir föður Neymars.

„Það var bara grín. Ég hef aldrei fengið svo mikið sem stöðumælasekt og hef ekki drepið moskítóflugu.“

El Clásico-leikur Real Madrid og Barcelona hefst klukkan 16.00 á laugardaginn og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.Fáðu þér áskrift hér.


Tengdar fréttir

Suárez: Messi er betri en Ronaldo

Úrúgvæski framherjinn má hefja leik aftur eftir keppnisbannið á laugardaginn og tekur þátt í sálfræðistríðinu fyrir El Clásico.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×